Veður

Vindur og él nái há­marki fyrri part kvölds

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Vindurinn og élið ná hámarki fyrri part kvölds í dag. Veðrið róast morgun og í vikunni tekur við kuldakast.
Vindurinn og élið ná hámarki fyrri part kvölds í dag. Veðrið róast morgun og í vikunni tekur við kuldakast. Vísir/Vilhelm

Veðurfræðingur segir að éljagangur verði langt fram á kvöld. Veðrið nái hámarki snemma í kvöld hvað varðar vind og ákafa éljagangsins. Veðrið róist á morgun og verði orðið gott á sunnudag. Talverðum kulda er síðan spáð í næstu viku.

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Blika.is, ræddi við Bylgjufólk í Reykjavík síðdegis um stöðuna á veðrinu og hvernig það þróast fram eftir kvöldi.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að veðrið muni róast á morgun og svo taki við mikill kuldi.Stöð 2

„Staðan akkúrat núna er ekki breytt frá hádeginu. Holtavörðuheiði er ófær og lokuð. Það hefur tekist að halda Bröttubrekku þrátt fyrir að það hafi verið við ramman reip að draga,“ sagði Einar um veðrið.

„Á Hellisheiði og Reykjanesbrautinni þá hefur meðalvindur verið að slá í tuttugu metra á sekúndu í hryðjunum og upp í þrjátíu í hviðunum. Með snjómokstri og hreinsun hefur tekist að halda þessu fínu en það er auðvitað skafrenningur á báðum þessum stöðum, sérstaklega á Hellisheiði og í Þrengslum,“ sagði hann.

Veðrið í hámarki snemma í kvöld

Veðrið nær hámarki seinni partinn og snemma í kvöld að sögn Einars en skafrenningur aukist með meiri snjókomu.

En hvernig verður framhaldið?

„Það er áfram él alveg fram á kvöldið, vel fram á kvöldið. Það er ennþá hætt við því að það gæti lokast á Bröttubrekku og vestur á firði eins og á Öxnadalsheiðinni. Vonandi helst þetta á Hellisheiðinni og Reykjanesbrautinni en ég er þokkalega bjartsýnn með Reykjanesbrautina ef veðrið versnar ekki meira,“ sagði Einar.

„Veðrið verður í hámarki seinni partinn og snemma í kvöld hvað varðar ákefð éljanna og vindinn. Svo eykst auðvitað skafrennningurinn eftir því sem við fáum meiri snjó og þar með blindan,“ sagði hann.

Mikill kuldi í kortunum

Einar segir að veðrið róist á morgun og svo verði komið fínt veður á sunnudag þó við taki mikið frost í kjölfarið 

Sérðu aðeins inn í helgina?

„Það dregur aðeins úr þessu á morgun, það er samt áfram éljagangur. Það gæti orðið dálítið þungt undir fæti vegna snjókomu því það er ekki þjónusta á nóttunni til dæmis í kringum Vík og með Suðurströndinni. En hann er hægari á morgun,“ sagði Einar

„Það gæti komið snjókomubakki hér úr vestri og inn yfir suðvestanlandið seint á morgun og annað kvöld og hann færi svo áfram með suðurströndinni. Það er óvissa með hann. Það verða él líka fyrir norðan. Á sunnudaginn er eiginlega komið skaplegasta veður um land allt og þá erum við líka laus við þessa leiðinlegu suðvestanátt og komin norðanátt af stilltara taginu

En er þá mikill kuldi framundan?

„Það er spáð talsverðum kulda í næstu viku,“ sagði hann.

Upp í tíu-tuttugu stiga frost?

„Eitthvað svoleiðis, ég hef ekki skoðað tölurnar rækilega en það verður kalt þó það verði ekki mikill vindur,“ sagði hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×