Íslenski boltinn

KSÍ sektar KR um sex­tíu þúsund krónur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingar þurfa bíða eitthvað lengur eftir fyrsta titlinum undir stjórn Gregg Ryder.
KR-ingar þurfa bíða eitthvað lengur eftir fyrsta titlinum undir stjórn Gregg Ryder. Vísir/Anton

Knattspyrnusamband Íslands hefur nú staðfest það að KR tapar úrslitaleik Reykjavíkurmótsins vegna þess að liðið notaði ólöglegan leikmann í leiknum.

Alex Þór Hauksson lék með KR í leiknum í gærkvöldi en hann er enn skráður sem leikmaður í Svíþjóð í kerfinu hjá KSÍ.  

KR vann Víking í vítakeppni í leiknum en úrslitum leiksins hefur verið breytt í 3-0 Víkingi í vil. Víkingar þurfa ekki að kæra úrslitin heldur er málið í höndum skrifstofu KSÍ.

KR-ingar fengu í fyrstu þær upplýsingar frá KSÍ að Alex og Aron Sigurðarson, sem einnig er nýr leikmaður KR, mættu spila leikinn. Það var svo dregið til baka eins og fjallað var um á Vísi fyrr í dag.

KR þarf líka að greiða sextíu þúsund króna sekt vegna málsins.

KSÍ birtir brot úr reglugerð sinni með fréttinni um dóminn.

Félag, sem notar leikmann sem ekki hefur keppnisleyfi með því eða notar leikmann, þjálfara eða forystumann í leikbanni, telst hafa tapað leiknum með markatölunni 0-3 nema tap hafi verið stærra, þá skal sú markatala ráða.

Staðfesti skrifstofa KSÍ að þátttakandi hafi verið óhlutgengur í leik skal mótanefnd þegar í stað skrá úrslit leiksins skv. ofangreindu og tilkynna það viðkomandi félögum. Heimilt er að kæra slíka skráningu til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ og skal kærufrestur telja frá þeim degi sem tilkynningin er gefin út. Viðkomandi félög verða sektuð samkvæmt reglugerð KSÍ um Deildarbikarkeppni.

Lið, sem mætir ólöglega skipað til leiks, skal sæta sekt að upphæð 30.000 krónur og að auki 30.000 krónur fyrir hvern leikmann sem ekki hefur keppnisleyfi með viðkomandi félagi og tekur þátt í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×