Enski boltinn

Hákon verður dýrasti mark­vörður í sögu sænsku deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson hefur verið eftirsóttur eftir góða frammistöðu með Elfsborg.
Hákon Rafn Valdimarsson hefur verið eftirsóttur eftir góða frammistöðu með Elfsborg. vísir/hulda margrét

Brentford greiðir Elfsborg rúmlega fimm hundruð milljónir íslenskra króna fyrir landsliðsmarkvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson.

Telegraph greindi frá því í morgun að Brentford hefði náð samkomulagi við Elfsborg um kaup á Hákoni.

Samkvæmt Expressen í Svíþjóð kostar Hákon Brentford rúmlega fjörutíu milljónir sænskra króna, eða rúmlega 520 milljónir íslenskra króna.

Hákon verður ekki bara dýrasti leikmaður sem Elfsborg hefur selt heldur einnig dýrasti markvörður sem hefur verið seldur úr sænsku úrvalsdeildinni. Pontus Dahlberg á metið en hann var seldur frá Gautaborg til Watford fyrir 39 milljónir sænskra króna 2018.

Hákon er núna á leið til London þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Brentford að því er fram kemur í frétt Expressen.

Hjá Brentford verður Hákon í baráttu við Mark Flekken og Thomas Strakosha um markvarðarstöðuna. Brentford er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Tottenham eftir viku.

Hákon kom til Elfsborg frá Gróttu 2021. Hann var valinn besti markvörður sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Elfsborg var hársbreidd frá því að verða meistari en tapaði fyrir Malmö í úrslitaleik um titilinn í lokaumferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×