Enski boltinn

Aston Villa búið að leggja fram kaup­til­boð í Hákon Rafn

Aron Guðmundsson skrifar
Hákon Rafn í leik með íslenska landsliðinu gegn Portúgal á síðasta ári.
Hákon Rafn í leik með íslenska landsliðinu gegn Portúgal á síðasta ári. David S. Bustamante/Getty Images)

Enska úrvalsdeildarfélagið Aston Villa hefur lagt fram formlegt kauptilboð í íslenska landsliðsmarkvörðinn Hákon Rafn Valdimarsson sem nú er á mála hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Elfsborg.

Frá þessu greinir félagsskiptasérfræðingurinn virti Fabrizio Romano í kvöld en Hákon Rafn sló í gegn með liði Elfsborgar á síðasta tímabili og var valinn markvörður tímabilsins í sænsku úrvalsdeildinni en Elfsborg rétt missti af sænska meistaratitlinum í lokaumferð deildarinnar. 

Mikill áhugi hefur verið á kröftum Hákons Rafns síðan þá en auk þess að hafa spilað frábærlega í Svíþjóð tók hann sín fyrstu skref með A-landsliði Íslands. 

Romano segir frá því í færslu á samfélagsmiðlinum X að bæði Aston Villa og FC Kaupmannahöfn hafi lagt fram formlegt kauptilboð í Hákon Rafn. Tilboð Aston Villa sé hins vegar hærra, um og yfir 2 milljónir evra herma heimildir félagsskiptasérfræðingsins. 

Gengi Aston Villa undir stjórn Spánverjans Unai Emery á yfirstandandi tímabili hefur verið glimrandi gott. Liðið er sem stendur í 3.sæti ensku úrvalsdeildarinnar, tveimur stigum frá toppliði Liverpool og er auk þess komið áfram í útsláttarkeppni Sambandsdeildar Evrópu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×