Erlent

Gerðu á­rás ná­lægt ræðis­skrif­stofu Banda­ríkjanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Árásin var gerð á borgina Erbil.
Árásin var gerð á borgina Erbil. Dan Kitwood/Getty

Byltingarverðir Írans hafa lýst yfir ábyrgð á loftárás á Erbil, sem er höfuðborg sjálfstjórnarhéraðs Kúrda innan landamæra Íraks.

AP-fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir stjórnvöldum í Íran að árásin hafi beinst að „hryðjuverkahópum sem beita sér gegn Íran“. Það var stuttu eftir að eldflaugar lentu skammt frá ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í borginni.

Öryggisráð svæðisstjórnar Kúrda á svæðinu hefur greint frá því að fjórir óbreyttir borgarar hafi fallið og sex aðrir særst í árásinni.

Íranir segjast hafa gert nokkrar árásir á „starfsstöðvar hryðjuverkamanna“. Þar á meðal séu skotmörk sem tengist Íslamska ríkinu í Sýrlandi. Í annarri yfirlýsingu sögðust Íranir þá hafa hæft höfuðstöðvar Mossad, leyniþjónustu Ísraels, innan kúrdíska hluta Íraks.

Aukin spenna á svæðinu

Fyrr í þessum mánuði lýsti Íslamska ríkið, ISIS, yfir ábyrgð á tveimur sjálfsvígssprengjuárásum á minningarathöfn um Qassem Soleimani. Soleimani var háttsettur og dáður hershöfðingi innin íranska hersins. Hann var drepinn í drónaárás Bandaríkjamanna árið 2020.

AP hefur eftir embættismanni innan bandaríska stjórnkerfisins að ekkert benti til þess að bandarískir innviðir hefðu skemmst í árásinni. Árásin er talin til marks um aukna spennu í Mið-Austurlöndum, þar sem talið er að árásir Ísraelsmanna á Gasa séu til þess fallnar að dreifa úr sér.

Síðan Hamas-samtökin gerðu árás á Ísrael þann 7. október á síðasta ári hafa herskáir hópar í Írak, með stuðning Írans, gert nánast daglegar drónaárásir á herstöðvar bandarískra hermanna í Írak og Sýrlandi. Þær árásir eru sagðar hefnd fyrir stuðning Bandaríkjanna við Ísrael.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×