Erlent

Hvíta húsinu ekki til­kynnt um veikindi og að­gerð varnar­mála­ráð­herrans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Austin gekkst undir aðgerð vegna blöðruhálskirtiskrabbameins í desember, þar sem hann var svæfður.
Austin gekkst undir aðgerð vegna blöðruhálskirtiskrabbameins í desember, þar sem hann var svæfður. AP/Maya Alleruzzo

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Lloyd Austin, gekkst undir aðgerð vegna blöðruhálskirtilskrabbameins þann 22. desember síðastliðinn og var svo aftur lagður inn í kjölfarið vegna þvagfærasýkingar tengdri aðgerðinni.

Frá þessu var greint í gær en málið hefur vakið meiri athygli en ella vegna þess að svo virðist sem hvorki Joe Biden Bandaríkjaforseta né öðrum háttsettum embættismönnum innan stjórnkerfisins hafi verið greint frá veikindum og sjúkrahúsinnlögn Austin fyrr en seint og síðar meir.

Samkvæmt erlendum miðlum var Austin lagður inn vegna þvagfærasýkingarinnar 1. janúar en hvorki Hvíta húsinu, þinginu né aðstoðar varnarmálaráðherranum Kathleen Hicks var greint frá veikindunum fyrr en nokkrum dögum síðar.

Stjórnvöld hafa nú gripið til þess að ráðast í endurskoðun á verkferlum og Hvíta húsið hefur sent frá sér ítrekun til ráðuneyta um að þeim sé skylt að tilkynna forsetaembættinu ef ráðherrar eða aðrir hæstráðendur geta ekki sinn störfum sínum.

Hvíta húsið hefur hins vegar einnig ítrekað að Austin verði áfram varnarmálaráðherra út þetta kjörtímabil Joe Biden. Þá lofaði John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, Austin og sagði veikindi og innlögn hans ekki hafa ógnað öryggi landsins.

Greint hefur verið frá því að varnarmálaráðherrann hafi verið svæfður í aðgerðinni í desember en hafi verið með fullri meðvitund frá því hann var lagður inn 1. janúar síðastliðinn. Hann er sagður munu ná fullum bata en læknar hafa varað við því að það muni taka tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×