Erlent

Telja að verið sé að leggja drög að því að dóttir Kim taki við völdum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Feðraveldið er sterkt í Norður-Kóreu og talið að Kim sé að venja þjóðina við að sjá konu í valdastöðu.
Feðraveldið er sterkt í Norður-Kóreu og talið að Kim sé að venja þjóðina við að sjá konu í valdastöðu. Getty/LightRocket/SOPA Images/Kim Jae-Hwan

Öryggisyfirvöld í Suður-Kóreu telja líklegt að verið sé að undirbúa Kim Ju Ae, dóttur Kim Jong-un, til að taka við af föður sínum þegar hann fellur frá. Ekki sé þó útilokað að þessar fyrirætlanir muni breytast.

Íbúum Norður-Kóreu hefur verið talin trú um að í æðum Kim-fjölskyldunnar renni heilagt blóð og að hún ein sé þess megnug að leiða og stjórna landinu. 

Líkt og almennt gildir um Norður-Kóreu er fátt vitað um fjölskyldu Kim, sem greindi til að mynda ekki frá því fyrr en seint og síðar meir að hann hefði gengið í hjónaband með eiginkonu sinni Ri Sol Ju.

Feðginin hefa sést saman á fjölda viðburða síðustu misseri.Getty/LightRocket/SOPA Images/Kim Jae-Hwan

Talið er að dóttir Kim sé um tíu ára gömul og næst elsta barn leiðtogans. Síðustu misseri hefur hún ítrekað sést í fylgd föður síns við ýmis tækifæri og þá hefur sú breyting vakið athygli að nú er vísað til hennar sem „virðingarverðar“ dóttur leiðtogans í stað „elskaðrar“ dóttur hans.

Í Norður-Kóreu er „virðingarverður“ aðeins notað um fámennan og útvalinn hóp og Kim sjálfur var til að mynda ekki kallaður „virðingarverður“ fyrr en ljóst var orðið að hann yrði næsti leiðtogi landsins.

Talið er að Kim vilji venja þegna landsins við að sjá dóttur hans í fylgd með honum, bæði til að tryggja að hún sé þekkt stærð þegar til þess kæmi að hún tæki við og til þess að undirbúa þá undir að kona taki við völdum í fyrsta sinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×