Erlent

Tryggir sér ævi­langa frið­helgi og lífstíðarþingsæti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsetinn hefur gulltryggt sig til æviloka.
Forsetinn hefur gulltryggt sig til æviloka. AP/Alexander Zemlianichenko

Alexander Lukashenko, forseti Belarús, hefur undirritað ný lög sem kveða á um ævilanga friðhelgi hans frá saksókn í refsimálum. Þá kveða lögin einnig á um að stjórnarandstæðingar sem hafa neyðst til að flýja land séu ekki lengur kjörgengir.

Samkvæmt nýju lögunum eru þeir nú aðeins kjörgengir í forsetakosningum sem eru ríkisborgarar Belarús og hafa búið í landinu samfellt í 20 ár og ekki haft dvalarleyfi í öðru landi. 

Lukashenko hefur verið við völd í Belarús í nær 30 ár en gríðarmikil mótmæli brutust út árið 2020, þegar hann náði endurkjöri í sjötta sinn. Kosningarnar voru harðlega gagnrýndar og sagðar ólögmætar.

Yfir 35 þúsund voru handteknir, margir pyntaðir og sumir yfirgáfu land.

Lukashenko, sem er einarður bandamaður Vladimir Pútín Rússlandsforseta, hefur verið sakaður um að hafa átt aðild að ólöglegum flutningi barna frá hernumdum svæðum í Úkraínu til Belarús.

Samkvæmt nýju lögunum verður hins vegar ekki hægt að sækja hann til saka eftir að hann lætur af embætti fyrir nokkuð það sem hann gerði á meðan hann var í embætti. Þá er kveðið á um ævilanga öryggisgæslu fyrir hann og fjölskyldu hans, greiðslu alls sjúkrakostnaðar og sjúkra- og líftryggingu fyrir lífstíð.

Forsetinn mun jafnframt sjálfkrafa verða þingmaður efri deildar þingsins til æviloka, ef hann lætur af forsetaembættinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×