Erlent

Segist gera ráð fyrir að á­tökin muni standa yfir út árið 2024

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ef marka má talsmann hersins þá verður ekkert lát á átökum á þessu ári.
Ef marka má talsmann hersins þá verður ekkert lát á átökum á þessu ári. AP/Leo Correa

Stjórnvöld í Ísrael segjast gera ráð fyrir að átökin á Gasa munu halda áfram fram eftir ári og að verið sé að gera breytingar til að undirbúa hersveitir fyrir langvarandi átök.

Frá þessu greindi Daniel Hagari, talsmaður hersins, í áramótaávarpi. 

Sagði hann að ákveðnar herdeildir, sérstaklega þær sem væru skipaðar varaliðum, yrðu dregnar til baka til að gera þeim kleift að enduskipuleggja sig fyrir áframhaldandi átök. Þau myndu líklega vara út árið.

Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum á Gasa, sem er stjórnað af Hamas, hafa tæplega 22 þúsund manns látist í árásum Ísraels og um 56 þúsund særst. 

Aðgerðir Ísraelsmanna hófust í kjölfar árása Hamas á byggðir í Ísrael 7. október síðastliðinn en herinn greindi frá því í gær að einn leiðtoga samtakanna, Adil Mismah, hefði látist í loftárásum á Deir al-Balah. Mismah var sagður hafa verið meðal þeirra sem skipulögðu árásirnar í október.

Stjórnvöld í Ísrael greindu frá því í gær að þau myndu grípa til varna fyrir Alþjóðaglæpadómstólnum eftir að Suður-Afríka biðlaði til dómstólsins í síðustu viku um að hefja rannsókn á meintu þjóðarmorði Ísraels á Palestínumönnum.

Samkvæmt dagblaðinu Haaretz var ákvörðunin um að verjast ásökununum í stað þess að hunsa þær tekin á fundi undir stjórn Benjamin Netanyahu forsætisráðherra, eftir samráð við öryggisráð landsins, herinn og dómsmálaráðuneytið.

Tzachi Hanegbi, ráðgjafi stjórnvalda í þjóðaröryggismálum, sagði stjórnvöld myndu verjast hinum fáránlegu ásökunum, sem mætti jafna við ásakanir fortíðar um að gyðingar fórnuðu kristnum til að nota blóð þeirra í trúarlegum athöfnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×