Veður

Víða hvass­viðri á fyrsta degi ársins

Atli Ísleifsson skrifar
Seint í nótt mun draga úr vindi.
Seint í nótt mun draga úr vindi. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðaustan tíu til átján metrum á sekúndu og rigningu eða slyddu með köflum á þessum fyrsta degi ársins.

Hvassast verður suðaustanlands og á Vestfjörðum. Gul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi vegna norðaustan hvassviðris eða storms til hádegis. Er talið að vindur gæti náð 35 metrum á sekúndum í hviðum, en hvassast er í Öræfum og má reikna með erfiðum akstursskilyrðum víða.

Á vef Veðurstofunnar segir að austan- og suðaustantil verði úrkoma þó samfelldari, en hiti verður á bilinu núll til sex stig.

„Víða verður snjókoma inntil landsins og til fjalla getur færð spillst með stuttum fyrirvara.

Seint í nótt dregur úr vindi, suðaustan 3-10 m/s á morgun með skúrum, en úrkomulítið á norðvestan- og vestanverðu landinu og birtir til þar er líður á daginn.

Eftir frostatíð þá hlýnar á landinu á nýju ári, hiti yfirleitt 0 til 6 stig fram í miðja viku,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Norðaustan 8-13 m/s og dálítil rigning eða slydda suðaustanlands, annars hægari og úrkomulítið. Frost 0 til 5 stig, en hiti víða 0 til 4 stig við sjávarsíðuna.

Á fimmtudag: Norðaustan og austan 5-10. Bjart með köflum sunnan- og vestanlands, en él við austurströndina. Frost 0 til 10 stig.

Á föstudag: Suðlæg átt með slyddu eða snjókomu og hita kringum frostmark vestantil, en þurrt og áfram kalt um landið austanvert.

Á laugardag: Sunnanátt og dálítil rigning eða snjókoma, en þurrt á Norðaustur- og Austurlandi. Hlýnandi veður.

Á sunnudag: Sunnanátt, skýjað og milt, en bjartviðri norðaustanlands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×