Erlent

Wolfgang Schäuble látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Wolfgang Schäuble lét af embætti fjármálaráðherra Þýskalands árið 2017 eftir að hafa gegnt embættinu frá árinu 2009.
Wolfgang Schäuble lét af embætti fjármálaráðherra Þýskalands árið 2017 eftir að hafa gegnt embættinu frá árinu 2009. EPA

Wolfgang Schäuble, fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands, er látinn, 81 árs að aldri. Hann var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Angelu Merkel kanslara á tímum skuldakreppunnar á evrusvæðinu.

Þýska fréttastofan DPA segir hann hafa andast í faðmi fjölskyldu sinnar í gærkvöldi.

Schäuble, sem fæddur var 1942 og lögfræðingur að mennt, var um árabil einn af leiðtogum Kristilegra demókrata í Þýskalandi.

Hann var kjörinn á þing árið 1972 og átti þar sæti allt til dauðadags. Hann tók við formennsku í flokki Kristilegra demókrata af Helmut Kohl árið 1998 og gegndi embættinu til 2000 þegar Angela Merkel tók við.

Merkel gerði Schäuble að fjármálaráðherra árið 2009 og varð hann þekktur fyrir harða afstöðu sína þegar kom að skuldakreppunni þar sem hann talaði fyrir ströngum aðhaldsaðgerðum og því að takmarka lánveitingar til aðildarríkja Evrópusambandsins í suðurhluta álfunnar, meðal annars Grikklands, Ítalíu og Spánar.

Hann lét af embætti fjármálaráðherra Þýskalands árið 2017 og tók þá við embætti forseta þingsins. Hann lét af því embætti árið 2021.

Á árum áður hafði hann meðal annars gegnt embætti innanríkisráðherra. Árið 1990 komst hann lífs af eftir að honum var sýnt banatilræði og var hann bundinn við hjólastól það sem hann átti eftir ólifað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×