Erlent

Enn eitt skipið fyrir eld­flaug á Rauða­hafi

Samúel Karl Ólason skrifar
USS Carney er eitt herskipanna sem siglt er á og við Rauðahafið þessa dagana.
USS Carney er eitt herskipanna sem siglt er á og við Rauðahafið þessa dagana. AP/Ryan U. Kledzik

Enn eitt flutningaskipið varð fyrir eldflaug á Rauðahafi í gærkvöldi. Eldflauginni mun hafa verið skotið frá yfirráðasvæði Húta í Jemen, eins og öðrum eldflaugum, en eldur kom upp í skipinu þegar eldflaugin hæfði það.

Skipið heitir Al Jasrah og skráð í Líberíu. Hútar hafa ekki lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Þetta hefur AP fréttaveitan eftir starfsmönnum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og sérfræðingum sem vakta siglingar um Rauðahafið.

Leiðtogar Húta hafa lýst því yfir að skotið verði á öll skip sem siglt er um Rauðahaf til Ísraels, nema þeim verði einnig siglt til Palestínu með neyðaraðstoð handa íbúum þar.

Fyrr í vikunni hæfðu Hútar norsk flutningaskip en útgerð þess segir stefnuna ekki hafa verið setta á Ísrael, heldur hafi verið að sigla því til Ítalíu. Þá lýstu Hútar því yfir í gær að sjálfsprengidróna hefði verið flogið að flutningaskipinu Maersik Gebrelater í gær og að dróninn hafi hæft skipið. Talsmaður sagði að þeim hefði tekist að stöðva þó nokkur skip sem hefði átt að sigla til Ísrael.

Hútar, sem njóta stuðnings frá Íran, hafa um árabil háð blóðuga styrjöld við alþjóðlega viðurkennd stjórnvöld í Jemen. Þeir hafa sömuleiðis gert árásir í Sádi-Arabíu en Sádar hafa staðið við bakið á yfirvöldum í Jemen.

Hópurinn stjórnar Sanaa, höfuðborg Jemen, og stórum hlutum landsins í norðri og vestri.

Hútar hafa skotið eldflaugum að mörgum skipum og flogið sjálfsprengidrónum að þeim. Þar á meðal eru bandarísk og frönsk herskip. Hútar hafa einnig sent sérsveitarmenn til að taka stjórn á einu skipi sem siglt var til hafnar í Jemen.

Til að komast inn í Rauðahaf úr suðri og þaðan gegnum Súes-skurðinn til inn á Miðjarðarhafið þarf að sigla skipum um Aden-flóa og Bab al-Mandab-sund. Skipin fara því mjög nærri ströndum Jemen og yfirráðasvæði Húta.

Bandarískt og franskt herskip er á svæðinu og hafa áhafnir þeirra skotið niður þó nokkra dróna og eldflaugar.

Áðurnefndir sérfræðingar sem vakta skipasiglingar á svæðinu segja einn gám hafa falli í sjóinn vegna árásarinnar og að eldur hafi kviknað á efsta þilfari skipsins. Engar fregnir hafa borist af mannfalli.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×