Fótbolti

Jón Dagur lagði upp og Ajax vann fjórða leikinn í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Dagur í leik með OH Leuven
Jón Dagur í leik með OH Leuven Vísir/Getty Images

Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp í Belgíu og Kristian Nökkvi var í byrjunarliði Ajax sem virðist loks hafa fundið sigurformúluna.

Jón Dagur Þorsteinsson lagði upp jöfnunarmark OH Leuven í 1-1 jafntefli gegn St. Truiden í belgísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Heimamenn komust yfir á 6. mínútu en Jón Dagur lagði boltann á Jonatan Brunes sem jafnaði metin tólf mínútum síðar.

Skömmu síðar fékk Richie Sagrado beint rautt spjald í liði Leuven og liðið því manni færri til leiksloka. Þrátt fyrir það héldu gestirnir út og nældu í eitt stig. Jón Dagur var tekinn af velli á 60. mínútu.

Leuven er nú í 15. sæti af 16 liðum með 14 stig, þremur frá öruggu sæti.

Í Hollandi var Kristian Nökkvi Hlynsson í byrjunarliði Ajax sem lagði Sparta Rotterdam 2-1. Mörkin skoruðu þeir Brian Brobbey og Steven Bergwijn úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Kristian Nökkvi var tekinn af velli á 65. mínútu.

Eftir ömurlega byrjun á leiktíðinni er Ajax komið upp í 24 sti gog situr í 5. sæti deildarinnar. Liðið er þó 21 stigi á eftir toppliði PSV og 11 stigum á eftir Feyenoord í 2. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×