Erlent

Rússar boða til for­seta­kosninga í mars

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vladimír Pútín, Rússlandsforseti til margra ára, hefur ekki gefið upp hvort hann hyggst bjóða sig fram að nýju. 
Vladimír Pútín, Rússlandsforseti til margra ára, hefur ekki gefið upp hvort hann hyggst bjóða sig fram að nýju.  Alexei Nikolsky/AP

Efri deild rússneska þingsins samþykkti í dag að boða til forsetakosninga þann 17. mars næstkomandi. Allir 162 þingmennirnir í efri deildinni samþykktu tillöguna.

Reuters hefur eftir Valentinu Matviyenko, forseta þingsins, að með þessu sé kosningabaráttan í landinu hafin. Þá segir hún að íbúar í Donetsk, Luhansk, Zaporizhzhya og Kherson fái að kjósa í fyrsta sinn.

Um er að ræða landssvæði sem Rússar hertóku í austurhluta Úkraínu árið 2014 og síðar, í trássi við alþjóðalög. Matviyenko segir alla Rússa deila sameiginlegri ábyrgð þegar kemur að því að velja forseta.

Vladimír Pútín hefur verið forseti landsins síðan árið 2012. Þá tók hann við af Dimitry Medvedev, samflokksmanni sínum, sem sjálfur tók við af Pútín árið 2008. Þeir gegndu svo forsætisráðherraembættinu á meðan hinn gegndi forsetaembættinu. Sama kjörtímabil, 2008 til 2012, var kjörtímabil forseta svo lengt um tvö ár, úr fjórum árum í sex.

Áður hafði Pútín verið forseti frá árinu 2000 til 2008 en rússnesk lög kváðu á þeim tíma um það að forseti mætti ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil samfleytt. Ríkisstjórn Pútín breytti þeim lögum árið 2020 þannig að nú getur forsetinn boðið sig fram aftur, vilji hann það. Fram kemur í frétt Reuters að Pútín hafi enn ekki tilkynnt opinberlega um framboð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×