Íslenski boltinn

Haugasund búið að kaupa Hlyn frá Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur Freyr Karlsson vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Val í sumar.
Hlynur Freyr Karlsson vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Val í sumar. vísir/hulda margrét

Valur hefur selt Hlyn Frey Karlsson til norska úrvalsdeildarliðsins Haugasunds sem Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfar.

Hlynur gekk í raðir Vals frá Bologna fyrir síðasta tímabil. Hann lék vel með Val í vetur og var einn besti leikmaður liðsins. Hlynur, sem er nítján ára, er fjölhæfur leikmaður sem getur bæði leikið í vörn og á miðju.

„Hlynur er ekki bara frábær leikmaður heldur frábær manneskja sem við munum sakna mikið. Hann er hins vegar ungur að árum og á framtíðina fyrir sér. Hann þroskaðist mikið sem leikmaður hjá okkur í Val þar sem hann fékk stórt hlutverk og ég er ekki í nokkrum vafa um að hann verður fljótt lykilmaður hjá Haugasund sem er mjög spennandi klúbbur. Við óskum Hlyni alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals, í tilkynningu frá félaginu.

Hlynur er annar leikmaðurinn sem Óskar Hrafn fær til Haugasunds. Félagið hafði áður fengið Norðmanninn Morten Konradsen frá Bodø/Glimt.

Haugasund hélt sér í norsku úrvalsdeildinni með sigri á Stabæk, 3-0, í lokaumferðinni á sunnudaginn.

Hlynur lék alla 27 leiki Vals í Bestu deildinni á síðasta tímabili og skoraði tvö mörk. Hann hefur leikið 25 leiki fyrir yngri landslið Íslands og var meðal annars fyrirliði U-19 ára landsliðsins á EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×