Erlent

Yfir­maður veitinga­staðar í Bordeaux á­kærður vegna eitraðra mat­væla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eitrunin var af völdum sardína sem höfðu ekki verið undirbúnar til geymslu með réttum hætti.
Eitrunin var af völdum sardína sem höfðu ekki verið undirbúnar til geymslu með réttum hætti.

Yfirmaður veitingastaðarins Tchin Tchin Wine Bar í Bordeaux í Frakklandi hefur veirð ákærður í tengslum við andlát konu en hún var meðal sextán gesta staðarins sem veiktist eftir að hafa snætt þar í september síðastliðinum.

Heimsmeistaramótið í ruðningi stóð þá yfir í borginni og voru flestir hinna veiku erlendir ferðamenn.

Konan sem lést var frá Grikklandi og var 32 ára.

Rannsókn leiddi í ljós að veikindin mátti rekja til bótúlíneitrunar en bótúlíneitur er taugaeitur af völdum bakteríunnar Clostridium botulinum. Það er stórhættulegt og afar banvænt.

Saksóknarar segja hreinlæti á veitingastaðnum hafa verið ábótavant, ekki síst í tengslum við heimagerða geymsluvöru. Um var að ræða sardínur, sem bornar voru á borð fyrir um 25 gesti.

Yfirmaður veitingastaðarins hefur verið ákærður fyrir manndráp, fyrir að stofna lífi annarra í hættu, fyrir að aðstoða ekki manneskju í nauð og fyrir að selja eitraðan mat, svo eitthvað sé nefnt.

Maðurinn á yfir höfði sér tveggja til fimm ára fangelsi og allt að 600 þúsund evra sekt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×