Erlent

Sunak segir endur­skoðun Brexit ekki í kortunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Von der Leyen og Sunak á ráðstefnu um gervigreind fyrr í mánuðinum.
Von der Leyen og Sunak á ráðstefnu um gervigreind fyrr í mánuðinum. epa/Tolga Akmen

Talsmaður Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá því gær að ráðherrann teldi ekki að Brexit, útganga Breta úr Evrópusambandinu, væri í hættu.

Tilefnið voru ummæli sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, lét falla á viðburði í Brussel á þriðjudag, þar sem hún sagði að leiðtogar hefðu klúðrað Brexit og mögulega væri það eitthvað sem yngri kynslóðin gæti „lagað“.

Von der Leyen var spurð að því hvort Bretar myndu einhvern tímann snúa aftur inn í Evrópusambandið.

„Ég verð að segja, ég segi við börnin mín: þið verðið að laga þetta... við klúðruðum þessu, þið verðið að laga þetta. Þannig að hér líka held ég er leiðin fram á við, það er mitt persónulega mat, augljós,“ sagði von der Leyen.

Talsmaður Sunak sagði hins vegar að það væri aðeins vegna þess frelsis sem Bretar hefðu öðlast við úrgönguna úr Evrópusambandinu að þeir gætu mótað eigin stefnu í málefnum hælisleitenda. Þá sagði hann það einnig Brexit að þakka að sjúklingar hefðu betra aðgengi að lyfjum og að úrbætur hefðu verið gerðar á dýravernd.

„Við erum með forsætisráðherra sem barðist fyrir Brexit áður en það þjónaði hagsmunum hans að gera það, þannig að hann er mjög ástríðufullur hvað þetta varðar. Við erum mjög einbeitt í því að láta þetta ganga upp.“

David Cameron, ferðaðist til Brussel í vikunni í fyrsta sinn eftir að hann snéri aftur í hlutverki utanríkisráðherra. Hann barðist fyrir veru Bretlands innan Evrópusambandins. Cameron neitaði að tjá sig við fjölmiðla þegar eftir því var leitað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×