Erlent

Henry Kissinger er látinn

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Kissinger var afar umdeildur.
Kissinger var afar umdeildur. AP/Richard Drew

Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og einn valdamesti embættismaður í bandarískri sögu er látinn, hundrað ára að aldri. Ráðgjafafyrirtæki Kissingers tilkynnti um þetta í nótt en hann lést á heimili sínu í Connecticut.

Kissinger var gyðingur af þýskum ættum sem flúði nasismann til Bandaríkjanna árið 1938. Hann gekk í herinn og varð síðan virtur fræðimaður á sviði alþjóðastjórnmála. 

Árið 1969 fékk Richard Nixon forseti hann til að vera sinn helsta ráðgjafa á sviði utanríkismála og 1973 gerði Nixon hann að utanríkisráðherra. Síðar vann hann einnig fyrir Gerald Ford í Hvíta húsinu og var síðan óformlegur ráðgjafi margra forseta á einum eða öðrum tíma. 

Með Nixon í Hvíta húsinu.AP

Á tímum kalda stríðsins hafði Kissinger gríðarleg áhrif þegar kom að afstöðu Bandaríkjanna til ýmissa mála og er honum meðal annars þakkað að samskipti Bandaríkjanna við Kína og Sovétríkin skánuðu til muna frá því sem var á fyrstu árunum eftir seinni heimstyrjöld. 

Hann var þó einnig harðlega gagnrýndur fyrir afstöðu sína í mörgum málum og sakaður meðal annars um að hafa átt þátt í valdaráni herforingjanna í Síle á sínum tíma, fyrir vandræðin sem Bandaríkjamenn komu sér út í í Víetnam og ekki síst sprengjuárásirnar á Kambódíu. 

Síðar samdi hann um brotthvarf Bandaríkjahers frá Víetnam of fékk fyrir það friðarverðlaun Nóbels. 

Forsíður fréttaveita í nú í morgunsárið sýna vel hversu umdeildur hann var; Rolling Stone tímaritið kallar hann stríðsglæpamann sem sé loksins dáinn en Washington Post lýsa honum sem manninum sem hafi mótað heiminn.

Með Clinton árið 1995.AP/J. Scott Applewhite


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×