Erlent

Musk fundar um gyðingaandúð með ráða­mönnum í Ísrael

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Elon Musk fer ótroðnar slóðir og hefur gaman að því að storka mönnum og ögra.
Elon Musk fer ótroðnar slóðir og hefur gaman að því að storka mönnum og ögra. AP/Kirsty Wigglesworth

Frumkvöðullinn og athafnamaðurinn Elon Musk mun funda í dag með Isaac Herzog, forseta Ísrael, og aðstandendum hverra ástvinir eru og hafa verið í haldi Hamas.

Fjöldi mannréttindasamtaka hefur sakað Musk um að ýta undir gyðingaandúð á samskiptamiðlinum X/Twitter, sem mógúllinn á og stjórnar. Skrifstofa Herzog tilkynnti um fundinn í gærkvöldi og sagði forsetann munu leggja áherslu á þörfina á því að berjast gegn gyðingaandúð á netinu.

Samkvæmt Guardian hefur Musk ekki tjáð sig um fundinn en miðlar í Ísrael greina frá því að hann muni einnig funda með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael. Netanyahu og Musk funduðu síðast í september, þar sem ráðherrann hvatti Musk til að leita jafnvægis á milli málfrelsisins og hatursorðræðu.

Musk svaraði á þann veg að hann væri á móti gyðingaandúð og öllu sem ýtti undir hatur og átök.

Ekki eru allir á einu máli um að framganga Musk endurspegli þetta viðhorf en hann hefur ítrekað ögrað og storkað mönnum með færslum á X/Twitter. Þá eru tæpar tvær vikur liðnar frá því að Musk tók undir færslu þar sem því var haldið fram að gyðingar væru að ýta undir hatur gegn hvítu fólki.

Musk hefur komið sér í nokkur vandræði með tístum sínum en fyrirtæki á borð við Walt Disney, Warner Bros Discovery og Comcast, eigandi NBCUniversal, hafa hætt að auglýsa á X/Twitter.

Árásir og ógnanir gegn gyðingum hafa aukist til muna í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum í kjölfar átakanna á Gasa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×