Erlent

Var með sannar glæpasögur á heilanum og langaði að prófa að myrða

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jung var með sannar glæpasögur á heilanum og langaði að prófa að fremja morð.
Jung var með sannar glæpasögur á heilanum og langaði að prófa að fremja morð. Lögreglan í Busan

Jung Yoo-jung, 23 ára gömul kona, hefur verið dæmd í lífstíðarfangelsi í Suður-Kóreu fyrir að myrða ókunnuga manneskju. Sagðist hún hafa framið morðið „af forvitni“.

Jung, sem var atvinnulaus og bjó hjá afa sínum, var mikil áhugamanneskja um sannar glæpasögur og varði miklum tíma í að horfa á þætti og lesa bækur um efnið. Hún er einnig sögð hafa skorað hátt á prófum þar sem skimað er eftir siðblindu.

Saksóknarar sögðu Jung hafa verið forvitna um þá upplifun að fremja morð og hafa verið með það á heilanum prófa að myrða. Í þessum tilgangi hafi hún varið mánuðum í að leita að fórnarlambi á netinu.

Jung setti sig í samband við yfir 50 manneskjur í gegnum smáforrit þar sem fólk getur auglýst og leitað eftir einkakennurum í ýmsum fögum og þóttist vera móðir framhaldsskólanema sem þarfnaðist aukatíma í ensku.

Hún fann að lokum 26 ára konu sem bjó í borginni Busan og sagðist bjóða upp á kennslu á heimili sínu.

Jung mætti heim til konunnar klædd í skólabúning en þegar inn var komið réðist hún á fórnarlambið og stakk hana yfir 100 sinnum, jafnvel eftir að konan var látin. Hún bútaði líkið síðan niður og tók leigubíl að skóglendi við á þar sem hún dreifði hluta líkamsleifana.

Það varð henni að falli að hún sást á öryggismyndavélum þar sem hún fór nokkrum sinnum inn og út af heimili fórnarlambsins, sem hefur ekki verið nafngreint.

Jung játaði en sagðist hafa verið andlega veik þegar hún framdi morðið. Saksóknarar sögðu það hins vegar augljóslega hafa verið vandlega skipulagt og Jung gæti því ekki borið við geðveiki.

Farið var fram á dauðadóm en Jung var dæmd í lífstíðarfangelsi.

Fangi var síðast tekinn af lífi í landinu árið 1997.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×