Innlent

Tölu­verðar skemmdir á neyslu­vatns­lögninni til Vest­manna­eyja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Huginn VE virðist hafa misst niður akkeri sem festist í vatnslögninni. Skipið var komið inn fyrir Klettsnef þegar atvikið átti sér stað.
Huginn VE virðist hafa misst niður akkeri sem festist í vatnslögninni. Skipið var komið inn fyrir Klettsnef þegar atvikið átti sér stað. Vísir/Egill

Töluverðar skemmdir virðast hafa orðið á neysluvatnslögninni til Vestmannaeyja þegar akkeri Hugins VE festist í vatnslögninni. Atvikið átti sér stað á föstudagskvöld en greint var frá því á vefsíðu Vestmannaeyjabæjar í gær.

Lögnin, sem liggur í sjó milli lands og Eyja er í eigu Vestmannaeyjabæjar en rekstur hennar er í höndum HS Veitna. Málsatvik eru í rannsókn en skipið var komið inn fyrir Klettsnef þegar atvikið átti sér stað.

„Vatn skilar sér enn um lögnina til Vestmannaeyja en svo virðist sem einhver leki sé á lögninni þar sem neysluvatn nái að streyma út. Kafarar sem fóru niður að lögninni í dag hafa staðfest talsverðar skemmdir á henni á um 50 metra kafla og hefur hluti hlífðarkápu losnað af lögninni og rekið upp í fjöru,“ segir í tilkynningunni á vef Vestmannaeyjabæjar.

Almannavarnanefnd bæjarins fundaði í gær ásamt fulltrúum HS Veitna, þar sem fram kom að mikilvægt væri að ráðast sem fyrst í aðgerðir til að verja lögnina frá frekari skemmdum. Undirbúningur á bráðabirgðaviðgerð er þegar hafinn.

Samhliða því verður hafinn undirbúningur á fullnaðarviðgerð en það mun kalla á aðkomu framleiðanda lagnarinnar og viðgerðaskips. Ekki liggur fyrir hvenær af því getur orðið, segir í tilkynningunni.

„Atvikið er alvarlegt þar sem vatnslögnin er eina flutningsæð neysluvatns til Vestmannaeyja.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×