Íslenski boltinn

Gísli Lax­dal skrifar undir þriggja ára samning á Hlíðar­enda

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gísli Laxdal mun leika fyrir Val næstu þrjú árin.
Gísli Laxdal mun leika fyrir Val næstu þrjú árin. Valur

Knattspyrnudeild Vals staðfesti í dag að félagið hefði samið við vængmanninn Gísla Laxdal Unnarsson til þriggja ára. Hann kemur frá uppeldisfélagi sínu ÍA.

Fyrr í sumar var greint frá því að Valsmenn hefðu náð samkomulagi við Gísla Laxdal sem var að renna út á samning hjá ÍA eftir tímabilið. Þau vistaskipti voru staðfest í dag á samfélagsmiðlum Vals.

Gísli Laxdal er fæddur árið 2001 en hefur verið í stóru hlutverki hjá ÍA undanfarin misseri. Hann hefur einnig leikið með Kára og Skallagrím á sínum ferli. Gísli hefur til þessa spilað 123 KSÍ-leiki og skorað 27 mörk. Valsmenn vonast án efa eftir því að mörkin verði enn fleiri á næstu þremur árum. Þá á hann að baki einn leik fyrir U-21 árs landslið Íslands.

Valsmenn voru duglegir á skrifstofunni í dag en fyrr í dag var Bjarni Guðjón Brynjólfsson kynntur til leiks. Hann kemur frá Þór Akureyri.

ÍA sigraði Lengjudeildina í ár og mun leika í Bestu deildinni á næstu leiktíð. Valur endaði í 2. sæti Bestu deildar með 55 stig, 11 stigum á eftir Íslandsmeisturum Víkings en 9 stigum á undan Stjörnunni sem endaði í 3. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×