United tapaði 4-3 fyrir FC Kaupmannahöfn í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn. Þetta var níunda tap United í vetur og liðið hefur ekki farið jafn illa af stað á tímabili í fimmtíu ár.
Þrátt fyrir þessa slæmu byrjun á tímabilinu segir Scholes að United ætti ekki að skipta um stjóra.
„Mér finnst enn ekki vera það mikil pressa á Erik ten Hag. Hann átti gott ár og keypti sér smá tíma. Hann hefur glímt við meiðslavandræði en níu töp í sautján leikjum er ekki nógu gott,“ sagði Scholes.
„Ég veit að United hefur rekið stjóra áður en þeir hafa ekki efni á að halda því áfram. Ég held við ættum að styðja þennan gaur.“
Ten Hag tók við United í fyrra. Á síðasta tímabili endaði liðið í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, komst í bikarúrslit og vann deildabikarinn.
Næsti leikur United er gegn Luton Town í ensku úrvalsdeildinni á morgun.