Enski boltinn

Bróðir og um­boðs­maður Marcus Rashford hand­tekinn í Miami

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dane og Marcus Rashford
Dane og Marcus Rashford

Dane Rashford, umboðsmaður og bróðir enska knattspyrnumannsins Marcus Rashford var handtekinn í Miami og ákærður fyrir heimilisofbeldi. Talið er að hann hafi slegið til barnsmóður sinnar Andreu Pocrnja þegar hann sá SMS skilaboð hennar til annars manns eftir langt kvöld á skemmtistað í borginni. 

Dane var handtekinn þann 20. október síðastliðinn, hann borgaði strax tryggingu fyrir frelsi fram að réttarhöldum fyrir 1.500$ eða um 200.000 íslenskar krónur samkvæmt heimildum Telegraph. Hann var upphaflega handtekinn fyrir brot við skotvopnalögum en var svo ákærður fyrir heimilisofbeldi þann 24. október. 

Dane Rashford er viðurkenndur umboðsmaður af enska knattspyrnusambandinu og fer fyrir umboðsmannaskrifstofunni DN May Sports Management ásamt eldri bróður sínum Dwaine Maynard. Saman eru þeir umboðsmenn Marcus Rashford. 

Dane hefur verið bannað að setja sig í samband við brotaþolanda þangað til úrskurðað verður í málinu. Saksóknari sagðist ekki vita hvort Dane Rashford hafi yfirgefið landið eftir að honum var sleppt úr haldi, en hann var einungis í fríi í Miami og er búsettur á Englandi. Hann verður yfirheyrður af yfirvöldum í Flórídaríki þann 27. nóvember. 

Rashford fjölskyldan, Manchester United og breska sendiráðið í Bandaríkjunum hafa öll neitað að tjá sig um málið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×