Veður

Hægur vindur, bjart með köflum og yfir­leitt þurrt

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu eitt til sjö stig yfir daginn.
Hiti verður á bilinu eitt til sjö stig yfir daginn. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir hægum vindi á landinu í dag, björtu með köflum eða léttskýjaðu og yfirleitt þurrt.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að hiti verði á bilinu eitt til sjö stig yfir daginn.

Í kvöld bæti svo í vind við suðurströndina og það þykknar upp.

„Næstu daga er svo útlit fyrir að víðáttumikil lægð djúpt suður af landinu stjórni veðrinu hjá okkur. Áttin verður því austlæg, yfirleitt fremur hægur vindur en syðst á landinu mun blása nokkuð með köflum. Austanáttinni fylgir lítilsháttar væta um landið austanvert, en vestanlands verður lengst af þurrt. Fremur milt í veðri,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austlæg átt 3-10 m/s, en 8-13 við suðurströndina. Skýjað með köflum og sums staðar dálítil væta, en þurrt og víða bjart á Norðurlandi. Hiti 2 til 9 stig, mildast sunnantil.

Á fimmtudag: Austan og norðaustan 3-10, en 10-15 syðst. Lítilsháttar væta á Suðaustur- og Austurlandi, en víðast hvar þurrt um landið vestanvert. Hiti breytist lítið.

Á föstudag og laugardag (fyrsti vetrardagur): Austan og norðaustan 5-15, hvassast syðst. Skýjað austanlands og sums staðar dálítil rigning eða slydda, en bjart að mestu um landið vestanvert. Hiti 0 til 8 stig að deginum, mildast við suðurströndina.

Á sunnudag og mánudag: Breytileg átt, bjart með köflum og yfirleitt þurrt. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×