Erlent

Ætla sér að gefa út nýja á­kæru á hendur Alec Baldwin

Atli Ísleifsson skrifar
Alec Baldwin viðurkenndi að hafa dregið aftur hamarinn á skammbyssunni, en að hann hafi ekki tekið í gikkinn þegar skotinu var hleypt af.
Alec Baldwin viðurkenndi að hafa dregið aftur hamarinn á skammbyssunni, en að hann hafi ekki tekið í gikkinn þegar skotinu var hleypt af. EPA

Saksóknarar í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum ætla sér að gefa út nýja ákæru á hendur leikaranum Alec Baldwin í tengslum við rannsókn á andláti kvikmyndatökukonunnar Halyna Hutchins við tökur á kvikmyndinni Rust í október 2021.

Saksóknarar ákváðu í apríl síðastliðinn að falla frá ákæru um manndráp af gáleysi á hendur leikaranum, tveimur vikum áður en til stóð að réttarhöld hæfust í málinu. Rannsókn hafði þá leitt í ljós að breytingar hafi verið gerðar á gikknum sem hafi orðið til þess að líklegra væri að skoti gæti verið hleypt af fyrir mistök.

Að sögn saksóknara hafa nýjar „viðbótarupplýsingar“ í málinu komið fram þannig að það verður nú lagt fyrir kviðdóm í næsta mánuði. Lögmenn Baldwin segja hins vegar misskilnings gæta hjá rannsakendum sem verður svarað í dómsmál.

Í fyrri ákæru var Baldwin gefið að sök að hafa brotið fjölda laga þegar hann miðaði byssu í átt að Hutchins. Hann hafi meðal annars sleppt því að fylgjast með á námskeiði um hvernig ætti að meðhöndla skotvopn og þá hafði hann ekki séð til þess að „vopnavörður“ hafi afhent honum skotvopnið heldur fékk hann það frá aðstoðarleikstjóra myndarinnar.

Baldwin hafði verið er að æfa sig að skjóta úr byssu á tölustaðnum nærri Santa Fe þegar skoti var hleypt þannig að hin 42 ára Hutchins lést og leikstjórinn Joel Souza særðist.

Baldwin viðurkenndi að hafa dregið aftur hamarinn á skammbyssunni, en að hann hafi ekki tekið í gikkinn þegar kúlan skaust úr byssunni.

Vopnavörður myndarinnar, Hannah Gutierrez-Reed, hefur verið ákærð í tveimur ákæruliðum vegna manndráps af gáleysi.


Tengdar fréttir

Vopna­vörðurinn sagður hafa verið með kókaín á setti

Saksóknarar í máli Hönnuh Gutierrez-Reed, sem ákærð hefur verið fyrir manndráp af gáleysi í tengslum við andlát kvikmyndatökumannsins Halynu Hutchins á tökustað kvikmyndarinnar Rust, segja hana hafa afhent ónefndu vitni lítinn poka af kókaíni daginn sem Hutchins lést.

Baldwin laus allra mála

Leikarinn Alec Baldwin verður ekki ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Baldwin skaut kvikmyndatökustjórann Halyna Hutchins til bana við tökur á myndinni Rust árið 2021.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×