Erlent

Læknar án landa­­­­mæra for­­­­dæma Ísraela: „Verið er að fletja út Gasa­ströndina“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Palestínskir sjúkraliðar hjálpa manni sem særðist í loftárásum Ísraela á Shifa-spítala á Gasaströndinni. Læknar án landamæra kalla eftir því að spítalir fái að vera örugg svæði utan átakanna.
Palestínskir sjúkraliðar hjálpa manni sem særðist í loftárásum Ísraela á Shifa-spítala á Gasaströndinni. Læknar án landamæra kalla eftir því að spítalir fái að vera örugg svæði utan átakanna. AP/Ali Mahmoud

Læknar án landamæra segja Ísraela hafa gefið læknum einungis tvo klukkutíma til að rýma sjúkrahús í Al Awda á Gasaströndinni. Læknar samtakanna fordæma aðgerðirnar og áframhaldandi árásir á innviði heilbrigðiskerfisins á Gasaströndinni.

Samtökin greindu frá þessu á X (áður Twitter) fyrir um klukkustund síðan. Þar segir að læknar samtakanna séu enn að sinna sjúklingum og séu að reyna að verja bæði starfsfólk sitt og sjúklinga.

„Við fordæmum þessar aðgerðir, áframhaldandi blóðsúthellingar og árásir á innviði heilbrigðiskerfisins í Gasa, umbúðalaust,“ segir í færslunni.

Fordæma kröfur Ísraelsmanna

„Sólarhringsfresturinn sem Ísrael hefur gefið fólkinu í norðurhluta Gasa til að yfirgefa land sitt, heimili og sjúkrahús er svívirðilegur,“ sagði Meinie Nicolai, forstjóri Lækna án landamæra, í yfirlýsingu.

„Við höfum endurtekið séð afmennskandi mál notað og þetta ofbeldi er birtingarmynd þess. Við erum að tala um meira en milljón manneskjur,“ sagði hann einnig og að „fordæmalaust“ væri ekki nógu stórt orð til að lýsa því sem væri að gerast. 

„Verið er að fletja út Gasaströndina, þúsundir eru að deyja, þessu verður að ljúka núna. Við fordæmum kröfur Ísrael algjörlega.“

Óska eftir því að spítalar fái að vera í friði

Læknar án landamæra hafa einnig staðfest að alþjóðleg teymi samtakanna, sem samanstanda hvert af um tuttugu starfsmönnum, á norðurhluta Gasastrandarinnar hafa flutt sig yfir á suðurhlutann. 

Þá segjast samtökin ekki geta sannreynt ástand allra 300 palestínskra kollega sinna en einhverjir þeirra séu að reyna að koma sér suður með fjölskyldum sínum og að samtökin séu að reyna að hjálpa því fólki að finna húsaskjól. Aðrir hafa haldið kyrru fyrir í norðrinu til að sinna særðum einstaklingum og öðrum sjúklingum.

Læknar án landamæra segja að kröfur Ísralesmanna um brottflutning rúmlega 1,1 milljónar íbúa norðurhluta Gasastrandarinnar séu fáránlegar og muni gera hræðilegt ástandið enn verra. Þá óska samtökin eftir því að búin verði til afmörkuð svæði sem eru örugg frá átökunum, þar á meðal spítalar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×