Enski boltinn

Umdeild U-beygja United: Antony æfir og má spila

Valur Páll Eiríksson skrifar
Antony er mættur aftur til æfinga.
Antony er mættur aftur til æfinga. Getty

Brasilíumaðurinn Antony, leikmaður Manchester United, er mættur til æfinga hjá félaginu og er laus úr banni frá því að spila fyrir liðið. Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins.

Antony sætir rannsókn bæði í heimalandinu og á Bretlandi vegna meints ofbeldis í garð fyrrverandi kærustu hans, Gabrielle Cavallin. Tvær aðrar konur hafa stigið fram og sakað Antony um ofbeldi.

United sendi Antony í leyfi á meðan málið er til rannsóknar en þrátt fyrir að rannsókn standi enn yfir hefur þeirri ákvörðun nú verið snúið við.

„Sem vinnuveitandi Antony hefur Manchester United ákveðið að hann muni hefja æfingar á ný á Carrington-æfingasvæðinu og verður tiltækur til liðsvals á meðan lögreglurannsókn fram gengur. Málið verður áfram til skoðunar innan félagsins eftir því sem málið þróast,“ segir í yfirlýsingu Manchester United.

Ákvörðun United er ákveðin kúvending á stefnu félagsins hvað slík mál varðar en Mason Greenwood, fyrrum leikmaður liðsins, fékk hvorki að æfa né spila á meðan rannsókn á hans meinta ofbeldismáli stóð. Kærur gegn Greenwood voru látnar niður falla í sumar en var í kjölfarið sendur burt frá United, til Getafe á Spáni.

Í yfirlýsingunni segir að United fordæmi ofbeldi af þeim toga er Antony er sakaður um og að félagið sé meðvitað um áhrif sem ásakanir sem þessa geti haft á þolendur slíks ofbeldis.

Þrátt fyrir það stendur ákvörðun liðsins um að aflétta banni Brasilíusmannsins.


Tengdar fréttir

Sakar United um að hylma yfir með Antony

Fyrrverandi kærasta Antonys, leikmanns Manchester United, sakar félagið um að hylma yfir með honum vegna ofbeldis sem hún segir hann hafa beitt sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×