Erlent

Unga fólkið gegn 32 ríkjum vegna lofts­lags­mála tekið fyrir hjá MDE

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unga fólkið var mætt í dómsal í morgun.
Unga fólkið var mætt í dómsal í morgun. AP/Jean-Francois Badias

Ellefu ára stúlka frá Portúgal er meðal sex ungmenna sem hafa höfðað mál gegn 32 ríkjum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Ungmennin segja ríkin hafa brotið gegn mannréttindum sínum með því að grípa ekki til aðgerða gegn loftslagsvánni. 

Mariana Agostinho var viðstödd þegar málið var tekið fyrir í dag, ásamt 86 lögmönnum ríkjanna 32.

Ungmennin eru á aldrinum 11 til 24 ára og ákváðu að grípa til sinnar ráða eftir að 66 létust í miklum gróðureldum í Leira í Portúgal árið 2017. 

Unga fólkið segir aðgerðir umræddra ríkja til að stemma stigu við hlýnun jarðar ekki duga til og að þannig hafi þau brotið gegn mannréttindum fólks; rétti þeirra til lífs, rétti þeirra til að sæta ekki ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð og réttinum til einka- og fjölskyldulífs, svo eitthvað sé nefnt.

„Þetta mál varðar unga fólkið,“ segir lögmaðurinn Alison Macdonald. „Þetta snýst um fólkið sem er gjalda fyrir það að ríkjum er að mistakast að takast á við loftslagsvandann. Þetta snýst um þann skaða sem þau munu hljóta af ef ríkin axla ekki ábyrgð.“

Umrædd ríki ákváðu að sameinast um svör en Sudhanshu Swaroop, lögmaður Bretlands, sagði ríkin full meðvituð um alvarleika glímunnar við loftslagsbreytingar. Með því að fara með málið beint til mannréttindadómstólsins hefðu dómstólar ríkjanna hins vegar ekki fengið að segja sitt.

Það lægi í hlutarins eðli að kröfurnar sem fælust í málssókn ungmennana myndu hafa verulegar samfélagslegar og efnahagslegar afleiðingar í för með sér fyrir ríkin en þau væru ekki endilega sammála í afstöðu sinni né hefði verið fjallað um málið á þjóðþingum þeirra.

Parísarsamkomulagið væri þegar í gildi um aðgerðir ríkjanna í loftslagsmálum og að aðrar kvaðir myndu grafa undan þeim sáttmála.

Macdonald sagði viðbrögð ríkjanna hins vegar jafngilda því að málið væri hreinlega of stórt, of flókið, of alþjóðlegt og að dómstóllinn ætti að líta í hina áttina. Það væri rangt að málið ætti ekki heima hjá dómstólnum; unga fólkið horfði fram á óbærilegan hita í framtíðinni ef ekkert yrði að gert.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.