Erlent

Um fjórðungur íbúa Na­gorno-Kara­bakh flúinn til Armeníu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sérfræðingar segja flesta íbúa svæðisins munu velja að flytjast til Armeníu, frekar en að tilheyra Aserbaídsjan.
Sérfræðingar segja flesta íbúa svæðisins munu velja að flytjast til Armeníu, frekar en að tilheyra Aserbaídsjan. AP/Gayane Yenokyan

Næstum fjórðungur íbúa Nagorno-Karabakh hafa flúið til Armeníu eftir að Aserar gerðu árás á svæðið í síðustu viku. Að minnsta kosti 68 létu lífið í sprengingu á eldsneytisstöð á mánudagskvöld.

Aserar hafa í um tíu mánuði hindrað för um einu leiðina til Aserbaídsjan, sem leiddi til verulegs skorts á matvælum, lyfjum og eldsneyti. Eftir að tálmarnir voru fjarlægðir hafa 28 þúsund manns flúið til Armeníu, af 120 þúsund íbúum Nagorno-Karabakh.

Sprengingin á eldsneytisstöðinni átti sér stað þegar fjölmenni freistaði þess að fylla á bifreiðar sínar seint á mánudag. Orsök sprengingarinnar liggur ekki fyrir en svo virðist sem mögulega sé um að ræða slys.

Eins og fyrr segir eru að minnsta kosti 68 látnir og nærri 300 særðir en 105 er saknað.

Yfirvöld í Armeníu hafa einnig greint frá því að 125 lík hafi verið sótt til Nagorno-Karabakh en þar var um að ræða einstaklinga sem létust í átökunum í síðustu viku.

Aserar hafa heitið því að virða réttindi Armena og Hikmet Hajiyev, aðstoðarmaður forsetans, sagði sjúkrahús í Aserbaídsjan reiðubúin til að taka á móti særðum en það fylgdi ekki sögunni hvort nokkrir hefðu verið fluttir þangað.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur hvatt forsetann Ilham Aliyev til að koma í veg fyrir frekari átök á svæðinu, fullvissa íbúa um öryggi þeirra og heimila alþjóðlegum eftirlitssveitum aðgengi.

Viðræður eru að hefjast um innlimun eða „aðlögun“ Nagorno-Karabakh að Aserbaídsjan en sérfræðingar gera ráð fyrir að flestir íbúa muni velja að flytja til Armeníu.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×