Íslenski boltinn

„Gæti ekki hugsað mér að vera neins staðar annars staðar“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kári Árnason hefur verið yfirmaður knattspyrnumála síðustu tvö tímabil í víkinni.
Kári Árnason hefur verið yfirmaður knattspyrnumála síðustu tvö tímabil í víkinni. vísir/arnar

Kári Árnason yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingum segir að samheldni innan félagsins hafi skilað því á þann stað sem það er í dag. Tímabilið karla- og kvennamegin hefur verið lyginni líkast.

Víkingur varð í gær Íslandsmeistari í Bestu deild karla þegar KR náði í stig gegn Valsmönnum og ljóst var að Valur gæti ekki með neinu móti náð Víkingum að stigum. Kári hefur verið yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu undanfarin 2 ár.

„Það er mikill meðbyr í félaginu núna en það er líka gríðarleg vinnusemi á bak við þetta báðum megin. Þetta eru allt þjálfarar sem leggja mikið á sig, stjórnarmenn og bara allir í félaginu og ég held að árangur karlaliðsins hafi smitað út frá sér og búið til trú kvennamegin. Stjórnin síðan tvíefldist bak við það og ætlaði sér að gera eitthvað,“ segir Kári og heldur áfram.

„Svo þessi bikarmeistaratitill var eitthvað sem við bjuggumst ekki við en þær stóðu sig frábærlega,“ segir Kári en Víkingar urðu bikarmeistarar kvenna í sumar, og þá lið í næstefstu deild.

Karlaliðið hefur nú unnið sex af síðustu níu titlunum sem í boði eru. Kári segist ekki beint hafa gert ráð fyrir þessum árangri þegar hann var yngri.

„Við höfum ekki verið líklegir í gegnum tíðina en núna er búið að mynda einhvern svona fullkominn storm í Víkinni og það er ótrúlega metnaðarfullt fólk alls staðar í félaginu. Ég gæti ekki hugsað mér að vera nein staðar annars staðar.“

Kári spáir leiknum gegn Blikum í kvöld 2-0 fyrir sínum mönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×