Síðan þá hefur herforingjastjórnin krafist þess að Frakkar kalli allt sitt fólk aftur heim en Macron sagði þá að herforingjarnir hefðu ekki umboð til þess, þar sem valdarán þeirra væri ólöglegt.
Macron tilkynnti svo í gær að Sylvain Itte, sendiherrann, og erindrekar Frakklands myndu fara aftur heim á næstu klukkutímum. Hermenn myndu svo fylgja eftir á næstu vikum og mánuðum og að engir franskir hermenn yrðu í landinu fyrir áramótin, samkvæmt frétt France24.
Sjá einnig: Sendiherra Frakklands í Níger haldið í gíslingu valdaræningjanna
Herforingjastjórnin í Níger sagði tilkynningu Macrons vera „nýtt skref í átt að fullveldi“ landsins.
Macron segist hafa tekið þessa ákvörðun eftir að hafa rætt við Bazoum, sem er í stofufangelsi. Hann var kjörinn forseti árið 2021, í fyrstu friðsömu valdaskiptum Níger frá því landið hlaut sjálfstæði.
Árásum fjölgar eftir valdarán
Um 1.500 franskir hermenn eru í Níger þar sem þeir hafa verið að berjast gegn hryðjuverkahópum á Sahel-svæðinu svokallaða. Það er þurrt svæði suður af Sahara-eyðimörkinni og nær yfir þvera Afríku. Al-Qaeda, ISIS og fleiri hryðjuverkahópar hafa verið virkir á þessu svæði um árabil.
Rúmlega þúsund bandarískir hermenn eru enn í Níger.
Í bæði Búrkína Fasó og Malí sögðust herforingjar hafa tekið völdin vegna þess að þeir gætu barist betur gegn vígahópum á svæðinu. Ofbeldið hefur þá aukist í þeim löndum og árásum hryðjuverkamanna fjölgað.
Macron sagði í yfirlýsingu sinni að svo virtist sem herforingjastjórnin í Níger hefði ekki lengur áhuga á að berjast gegn vígahópum.
Sjá einnig: Sendir herforingjastjórn Níger tóninn
AP fréttaveitan sagði frá því fyrir helgi að árásum vígamanna í Malí, nágrannaríki Níger, hefði fjölgað mjög á undanförnum vikum. Frá því friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna hefðu byrjað að hörfa frá norðurhluta landsins hefði fjöldi árása tvöfaldast og á einum mánuði hefðu rúmlega 150 manns fallið í árásum vígamanna.
Þá er útlit fyrir að friðarsamkomulag milli hers Malí og uppreisnarmanna í norðurhluta landsins muni ekki halda.
Sjá einnig: Tugir borgara féllu í árás hryðjuverkamanna í Malí
Macron sagði í gær að hann hefði miklar áhyggjur af svæðinu. Herforingjastjórnir í Níger, Malí og Búrkína Fasó væru bandamenn óreiðu.