Erlent

For­sætis­ráð­herra biður Selenskí að „móðga Pól­verja aldrei framar“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mateusz Morawiecki forsætisráðherra var alls ekki sáttur með ummæli Úkraínuforseta.
Mateusz Morawiecki forsætisráðherra var alls ekki sáttur með ummæli Úkraínuforseta. Getty/Vogel

Forsætisráðherra Póllands biður Volódímír Selenskí Úkraínuforseta um að móðga Pólland aldrei framar. Forsætisráðherrann tók gagnrýni Selenskís óstinnt upp á dögunum. Pólverjar hyggjast hætta að senda vopn til Úkraínu.

Pólland hefur hingað til verið meðal helstu bandamanna Úkraínu síðan innrás Rússa hófst. Deila um innflutning á korni hefur magnast undanfarið og deila vinaþjóðirnar nú hart hvor á aðra. Pólverjar lýstu því yfir í vikunni að þeir myndu hætta að sjá Úkraínumönnum fyrir vopnum og þá var sendiherra Úkraínu kallaður á teppið í Póllandi vegna orða sem Selenskí Úkraínuforseti lét falla hjá Sameinuðu þjóðunum. Það eru einmitt þessi orð Selenskí sem urðu kveikjan að pirringi Mateuszar Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.

Volódímír Selenskí sagði að sumar þjóðir hefðu bara verið að þykjast í samstöðu sinni með Úkraínu. Pólsk stjórnvöld tóku þetta afar óstinnt upp og sögðust hafa staðið þétt við bakið á Úkraínu allt frá byrjun. Morawiecki lýsti því svo yfir á fimmtudag að vopnasendingar yrðu stöðvaðar.

„Ég vil biðja Selenskí um að móðga Pólverja aldrei framar, eins og hann gerði í ræðu sinni hjá Sameinuðu þjóðunum. Pólska þjóðin mun aldrei leyfa þessu að viðgangast. Það er ekki bara hluti af starfi mínu og skyldu að vernda heiður þjóðarinnar. Það er mikilvægasta verkefni pólsku ríkisstjórnarinnar,“ sagði Morawiecki á fjöldafundi í gær, samkvæmt CNN.

Á myndinni eru félagarnir á meðan allt lék í lyndi: Volódímír Selenskí forseti Úkraínu og Mateusz Morawiecki forsætisráðherra Póllands.Getty/Marques

Andrzej Duda, forseti Póllands, dró aðeins úr orðum forsætisráðherrans um vopnasendingarnar og sagði hann aðeins hafa átt við að nýrri vopn yrðu ekki send til Úkraínu. Það er, að keypt yrðu vopn fyrir pólska herinn en eldri varningur gæti mögulega farið til Úkraínumanna.

Deilan um kornið snýst í stuttu máli um að Evrópusambandið hafði bannað frjálsan innflutning á korni til fimm landa í grennd við Úkraínu, til þess að vernda innlenda framleiðslu. Því banni hefur nú verið aflétt en Ungverjar, Slóvakar og Pólverjar hafa ákveðið að halda banninu áfram fyrir sitt leyti. Þetta hefur hleypt illu blóði í Úkraínumenn sem hafa kært ákvörðunina til Alþjóðavipskiptastofnunarinnar.


Tengdar fréttir

Vill taka neit­un­ar­vald­ið af Rúss­um

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, kallaði eftir því í dag að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna yrði breytt á þann veg að hægt yrði að svipta ríki sem eiga fast sæti í ráðinu neitunarvaldi. Öryggisráðið og SÞ gætu ekkert gert vegna stríðsins þar sem árásaraðilinn, Rússland, væri með neitunarvald.

„Illsku er ekki treystandi“

Illsku er ekki treystandi. Þetta voru skilaboð Volodómírs Selenskís Úkraínuforseta þegar hann hélt ávarp sitt á Allsherjarþingi Semeinuðu þjóðanna í gærkvöldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.