Umfjöllun og viðtöl: FH - Stjarnan 1-3 | Stjarnan komst upp fyrir FH í baráttunni um sæti í Evrópukeppni

Hjörvar Ólafsson skrifar
Eggert Aron Guðmundsson fagnar marki í 4-0 sigri Stjörnunnar gegn FH fyrr í sumar.
Eggert Aron Guðmundsson fagnar marki í 4-0 sigri Stjörnunnar gegn FH fyrr í sumar. vísir/hulda margrét

Stjarnan lagði FH að velli með þremur mörkum gegn einu þegar liðin áttust í 24. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kaplakrikavelli í dag. 

Eggert Aron Guðmundsson kom gestunum úr Garðabænum í 2-0 með mörkum sínum í fyrri hálfleik, það fyrra kom eftir fimm mínútna og það seinna eftir tæplega stundarfjórðungs leik.

Gyrðir Hrafn Guðbrandsson minnkaði hins vegar muninn í upphafi seinni hálfleiks þegar hann stangaði fyrirgjöf Vuk Oskars Dimitrijevic í netið. Eftir markið sem Gyrðir Hrafn skoraði var mikill kraftur í heimamönnum sem freistuðu þess að jafna metin.

Emil Atlason sá aftur á móti til þess að Stjarnan náði tveggja marka forskoti á nýjan leik þegar hann skallaði boltann í autt markið af stuttu færi eftir rúmlega tíu mínútna leik í seinni hálfleik. Þetta er 15. mark Emils í deildinni í sumar en hann er markahæstur eins og sakir standa.

Liðin berjast um að lenda í annað hvort þriðja eða fjórða sæti deildarinnar og næla sér þar af leiðandi sæti í Evrópukeppni á næsta keppnistímabili.

Stjarnan jafnaði FH að stigum með þessum sigri en liðin höfðu sætaskipti í þriðja og fjórða sæti deildarinnar þar sem Stjörnuliðið hefur betri markatölu. Blikar eru síðan sæti ofar með einu stigi meira og eiga leik til góða. Breiðablik leikur við topplið deildarinnar, Víking, annað kvöld.

KR-ingar eru þar fyrir neðan með 34 stig og útlit fyrir spennandi baráttu um Evrópusætin allt fram í lokaumferð deildarinnar.

Heimir Guðjónsson var ekki sáttur við hvernig lærisveinar hans mættu til leiks. Vísir/Hulda Margrét

Heimir Guðjónsson: Vantaði upp á grunngildin í fyrri hálfleik

„Ég varð fyrir vonbrigðum með hvernig við mættum til leiks og þá helst með að ná ekki að bregðast við því uppleggi Stjörnumanna í upphafi leiks. Þeir hápressuðu okkur á nákvæmlega sama hátt og þeir gerðu í síðasta leik okkar í Garðabænum og voru með sömu færslur sóknarlega. 

Við vorum búnir að fara vel yfir þetta fyrir leikinn en samt náðu leikmenn ekki að bregðast við því almennilega sem er mjög svekkjandi. Það vantaði einnig bara grunngildin, baráttu og að ná upp floti á boltann í sóknarleiknum,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, svekktur að leik loknum. 

„Við fórum yfir þessa hluti í hálfleik og það var allt annað að sjá okkur í seinni hálfleik. Það var móment með okkur þegar þeir skora svo 3-1. Það þarf að spila allan leikinn almennilega ef þú ætlar að ná í úrslit á móti jafn sterku liði og Stjarnan er og því fór sem fór,“ sagði Heimir enn fremur.  

Jökull I. Elísabetarson: Náðum að halda boltanum á jörðinni

„Við náðum að halda boltanum á jörðinni og spila okkar bolta þrátt fyrir veðuraðstæður og ég er ofboðslega sáttur við það. Við náðum að stýra leiknum vel með því að láta boltann rúlla í þau svæði sem við vildum sækja í og uppskárum þrjú góð mörk," sagði Jökull I. Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, kampakátur. 

„Við ræddum það fyrir leik að við ætluðum ekki að láta vindinn stýra því hvernig leikurinn myndi þróast og það tókst. Þeir komu hins vegar af krafti inn í seinni háfleikinn og settur okkur undir pressu. Það var því mikill léttir að sjá Emil skora og innsigla sigurinn," sagði Jökull.

„Nú er baráttan um sæti í Evrópukeppni bara kominn í einn hnút en við erum bara með fókusinn við næsta verkefni sem er leikur við KR í næstu umferð deildarinnar. Við hugsum ekkert lengra en það á þessum tímapunkti,“ sagði þjálfari Stjörnunnar um framhaldið .

Jökull Elísabetarson gekk sáttur frá borði í Kaplakrika í dag. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn mættu mjög ákveðnir til leiks og náðu að setja FH-inga undir góða pressu. Eggert Aron sýndi svo hvers hann er megnugur þegar hann kom Stjörnunni í 2-0. FH hefði hæglega getað jafnað í  upphafi seinni hálfleiks en Stjörnumenn náðu vopnum sínum á nýjan leik og innbyrtu gríðarlega mikilvægan sigur. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Eggert Aron skoraði tvö mörk í þessum leik og var mjög góður inni á miðjunni hjá Stjörnunin og það sama má segja um Jóhann Árna Gunnarsson. Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnunnar, var svo bæði öruggur í aðgerðum sínum í uppspili gestanna og aðgerðum sínum þegar kom að markvörslu. 

Vuk Oskar Dimitrijevic var hættulegasti leikmaður FH og þegar hætta skapaðist upp við mark Stjörnunnar var Vuk oftast einhvers staðar nálægt. Gyrðir Hrafn var svo beinskeyttur og skoraði gott mark. 

Hvað gekk illa?

Leikmönnum FH gekk illa að fara eftir því leikplani sem Heimir Guðjónsson og Sigurvin Ólafsson settu upp fyrir leikinn og eftir stundarfjórðungs leik voru þeir búnir að grafa djúpa holu. Þeir náðu næstum því að grafa sig upp úr holunni en ekki alveg. 

Hvað gerist næst?

FH mætir Víkingi í Fossvoginum á fimmtudaginn kemur en sama kvöld fær Stjarnan svo KR í heimsókn í Garðabæinn. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira