Erlent

Telja eldflaugina hafa verið úkraínska

Samúel Karl Ólason skrifar
Særður maður borinn á brott eftir sprenginguna.
Særður maður borinn á brott eftir sprenginguna. AP/Evgeniy Maloletka

Útlit er fyrir að eldflaugin sem banaði minnst fimmtán manns og særði rúmlega þrjátíu í bænum Kostiantynivka í austurhluta Úkraínu þann 6. september hafi verið skotið á loft af Úkraínumönnum sjálfum. Eldflaugin lenti á markaði í bænum en innan við tveimur tímum síðar sakaði Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, Rússa um árásina.

Í ítarlegri greiningu blaðamanna New York Times, sem hafa rætt við vitni, skoðað upptökur úr öryggismyndavélum og skoðað sprengibrot á vettvangi, svo eitthvað sé nefnt, segir að eldflaugin hafi að öllum líkindum komið úr vestri, frá yfirráðasvæði Úkraínumanna.

Frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar í fyrra hafa hersveitir Rússlands gert ítrekaðar árásir á óbreytta borgara í Úkraínu og látið sprengjum rigna yfir byggð ból í landinu. Meðal annars er markmiðið að skjóta almenningi skelk í bringu.

Degi áður en eldflaugin lenti í bænum höfðu Rússar varpað sprengjum á hann. Sex manns létu svo lífið í árás Rússa á Kostiantynivka í apríl, þegar sprengjur féllu á heimili og barnaskóla í borginni.

Í grein NYT segir að tveimur mínútum áður en eldflaugin lenti í bænum hafi úkraínskir hermenn skotið tveimur eldflaugum, sem hannaðar eru til að skjóta niður flugvélar og aðrar eldflaugar, á loft skammt frá Kostiantynivka. Talið er að um hafi verið að ræða tvær eldflaugar af gerðinni 9M38 sem skotið er með Buk loftvarnarkerfi en Úkraínumenn höfðu sagt að eldflaugin hefði verið af gerðinni S-300 en slíkum eldflaugum, sem búið er að breyta, er reglulega skotið að úkraínskum bæjum og borgum.

Blaðamenn NYT voru fyrir tilviljun í bænum Druzhkivka, sem er norðvestur af Kostiantynivka en það er áttin sem talið er að eldflaugin hafi komið úr. Hafi eldflauginni verið skotið frá Druzhkivka hefur hún flogið eingöngu um sextán kílómetra áður en hún lenti og hefur því verið töluvert eldsneyti í henni þar sem þær drífa tæplega tvöfalt lengra.

Selenskí birti myndband af því þegar eldflaugin lenti, þegar hann sakaði Rússa um að hafa skotið henni.

Í grein NYT segir að ekki sé ljóst af hverju eldflaugin hafi lent í Kostiantynivka en hún hafi líklega bilað. Fyrir því geti verið ýmsar ástæður. Rafbúnaður um borð í eldflauginni geti bilað eða einn af uggum hennar, sem stýrir henni, gæti hafa bilað eða dottið af, svo eitthvað sé nefnt.

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Úkraínu sagði málið til rannsóknar og að hann gæti ekki tjáð sig um það að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×