Hinn 44 ára gamli De Zerbi er fæddur í Róm á Ítalíu en hóf þó leikmannaferil sinn með AC Milan í Mílanó. Hann lék aldrei fyrir aðallið félagsins og flakkaði á milli misgóðra liða áður en skórnir fóru upp á hillu árið 2013.
Hann hóf þjálfaraferilinn sama ár og eftir að vinna sig upp á Ítalíu færði hann sig til Úkraínu árið 2021 þegar hann tók við Shakhtar Donetsk. Það var svo í september 2022 sem hann tók við Brighton eftir að Graham Potter færði sig yfir til Chelsea.
Síðan þá hefur gengið Brighton verið hreint út sagt dæmalaust. Það eru ekki bara úrslitin sem eru góð heldur eru frammistöður liðsins að sama skapi undraverðar.
„Þetta er hætt að koma okkur á óvart,“ sagði Danny Murphy, fyrrverandi miðjumaður Liverpool og núverandi sparkspekingur í sjónvarpsþættinum vinsæla Match of the Day.
„Það var auðvelt fyrir Brighton að stýra hraðanum í leiknum og halda í boltann. Brighton gerir þetta mjög vel. Þeir spila ekki aðeins stutt, ef það er svæði til að hlaupa í þá eru leikmenn liðsins tilbúnir til þess, og þeir eru með mikinn hraða. Þetta var mjög yfirveguð frammistaða,“ bætti Murphy við um sigurinn á Old Trafford.
Þegar tölfræði liðsins undir stjórn De Zerbi er skoðuð þá er liðið í 3. sæti yfir skoruð mörk, 76 talsins. Liðið er í 1. sæti þegar kemur að skotum (624) og skotum á mark (244). Liðið er í 3. sæti yfir snertingar í teig andstæðinganna (1228), liðið er í 2. sæti þegar kemur að xG (74.7) og í 2. sæti þegar kemur að því að halda í boltann (62 prósent).
Not bad at all for Roberto De Zerbi s first year at @OfficialBHAFC
— Premier League (@premierleague) September 18, 2023
Here is how his side s stats rank in the Premier League since he joined the Seagulls pic.twitter.com/13YZoEX31P
Stóra spurningin er hvort liðið haldi dampi út tímabilið en ef það raungerist stefnir allt í að Brighton spili í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Núverandi tímabil er þó rétt nýhafið og hlutirnir breytast hratt í fótboltaheiminum.