Erlent

Guðni og Eliza fagna fimm­tíu árum með Karli Gústaf

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Karl XVI Gústaf ásamt Silvíu drottningu í messu í morgun.
Karl XVI Gústaf ásamt Silvíu drottningu í messu í morgun. EPA-EFE/Claudio Bresciani

Karl XVI. Gústaf Svía­konungur fagnar í dag hálfrar aldar krýningar­af­mæli og eru for­seta­hjón Íslands á­samt öðrum nor­rænum þjóð­höfðingjum í Sví­þjóð í til­efni af því. 

Hjónin voru stór­glæsi­leg þar sem þau mættu til leik­sýningar í Drottning­holm hallar­leik­húsinu og svo í við­hafnar­kvöld­verð í Drottning­holm höllinni í kjöl­farið. Karl Gústaf varð þjóð­höfðingi Sví­þjóðar árið 1973 við and­lát afa síns, Gústafs VI. Adolfs konungs.

Missti föður sinn níu mánaða gamall

Faðir Karls Gústafs og þá­verandi krón­prins, Gústav Adolf, lést í flug­slysi árið 1947 á Kastrup flug­velli í Kaup­manna­höfn. Hann var á leið frá Amsterdam til Stokk­hólms og vél hans var að milli­lenda í Dan­mörku þegar stýris­búnaður vélarinnar læstist með þeim af­leiðingum að hún hrundi til jarðar. 22 far­þegar voru um borð og létust þeir allir.

Karl Gústaf varð því erfingi krúnunnar níu mánaða gamall. Hann og systur hans þær Margrét prinsessa, Dési­ré­e, Birgitta og Kristína hafa sjaldan rætt föður­missinn opin­ber­lega. Móðir þeirra Si­bylla prinsessa hefur lýst því hvernig ver­öld sín hrundi vegna and­láts Gústavs.

Karl Gústaf ræddi and­lát föður síns í fyrsta sinn árið 2004 í ræðu eftir mann­skæða flóð­bylgju þar sem rúm­lega 200 þúsund manns létust. Þar á meðal voru sex hundruð Svíar og lá harmleikurinn Svíum nærri. Karl deildi því með heimsbyggðinni að hann kannaðist við það hvernig það var að missa foreldri.

„Mörg börn hafa misst einn, jafn­vel tvo for­eldra. Ég veit hvernig það er, ég hef verið slíkt barn. Faðir minn dó í flug­slysi þegar ég var pínu­lítill. Þannig að ég veit hvernig það er að alast upp án föðurs.“

Lengst ríkjandi konungur Sví­þjóðar

Karl Gústaf er orðinn þaul­setnasti konungur Sví­þjóðar. Hann setti metið árið 2018 þegar hann hafði verið í há­sætinu í 44 ár og 223 daga. Fyrra metið var nokkurra alda gamalt.

Það átti Magnus Eriks­son, sem sam­kvæmt opin­berum skjölum Svía, var konungur í 44 ár og 222 daga á 14.öld. Karl sló því nokkurra alda­gamalt met en hann var einungis 27 ára þegar hann varð konungur fyrir 50 árum síðan árið 1973.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands ásamt Sauli Niinistoe, forseta Finnlands og forsetafrúnni Jenni Haukio í messu í morgun. EPA-EFE/Jonas Ekstroemer

Í dag verður messa í Slott­skyrkan í til­efni dagsins sem þau Guðni Th. Jóhannes­son og Eliza Reid, for­seta­hjón, munu sækja fyrir Ís­lands hönd á­samt sænsku konungs­fjöl­skyldunni og full­trúum hinna norður­landanna. Að henni lokinni verður konungurinn hylltur frá svölum konungs­hallarinnar.

Þá verður nor­rænum þjóð­höfðingjum boðið til há­degis­verðar með sænsku konungs­hjónunum og Ulf Kristers­son, for­sætis­ráð­herra Sví­þjóðar. Dag­skrá krýningar­af­mælisins lýkur svo með há­tíðar­kvöld­verði í konungs­höllinni í kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×