Erlent

Til­vistar­kreppa ó­lífu­olíunnar

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Búist er við að neysla á ólífuolíu dragist saman um allt að 40 prósent á þessu ári. 
Búist er við að neysla á ólífuolíu dragist saman um allt að 40 prósent á þessu ári.  Getty

Ólífuuppskeran á Spáni hefur hrunið á undanförnum mánuðum vegna viðvarandi þurrka. Verð hefur hækkað upp úr öllu valdi og neytendur segjast þurfa að skera niður innkaup á annarri matvöru til að hafa efni á ólífuolíunni. 

Spánn er stærsti framleiðandi ólífuolíu í heiminum

Ólífuolían er hornsteinn spænskrar matargerðar enda er Spánn stærsti framleiðandi ólífuolíu í heiminum. Hilluplássið fyrir ólífuolíu í stórmörkuðum er mælt í tugum metra. Og verðið getur verið allt frá örfáum evrum á lítrann upp í andvirði 50 til 60.000 króna fyrir lítrann.

Og það er vandfundið það spænska heimili þar sem ekki er til ólífuolía. En þeim kann að fara fjölgandi. Því ólífuolían er í tilvistarkreppu, hún er nefnilega orðin svo dýr, dýrari en nokkru sinni áður. Engin matvara hefur hækkað eins mikið á Spáni að undanförnu, eða um tæp 40% á einu ári.

Samdráttur í neyslu og útflutningi

Búist er við að neyslan dragist saman um allt að 40% prósent á þessu ári og útflutningur dregst saman um svipað.

Spænska dagblaðið El País ræddi á dögunum við neytendur í kjörbúðum sem allir sögðu að þrátt fyrir gríðarlegar hækkanir þá myndu þeir ekki hætta að kaupa ólífuolíu, það sé ómögulegt, hún sé svo ríkur hluti spænskrar menningar. Frekar myndu þeir kaupa minna og ódýrara af annarri matvöru. Þá nefndu sumir að þeir myndu hugsanlega nota ólífuolíuna sjaldnar, við hátíðlegri tilefni, en skipta kannski hversdags yfir í sólblóma-, repju eða pálmaolíu.

Uppskeran hefur hrunið vegna langvarandi þurrka

Ástæða þessara miklu hækkana er lélegri ólífuuppskera. Síðasta uppskera gaf einungis af sér 660.000 tonn af ólífum, en meðaluppskera er venjulega um ein og hálf milljón tonna.

Og útlitið fyrir komandi uppskeru er ekki gott. Einfaldlega ef því að það rignir ekki og bændur eiga í erfiðleikum með að útvega vatn til að vökva ólífulundina. Bændur hafa þó ekki misst alla von og treysta á hressilegar haustrigningar. Guð láti gott á vita.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×