Erlent

For­dæmir spillingu í tengslum við undan­þágur frá her­þjónustu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsetinn segir rannsóknar þörf á þeim fjölda sem hefði farið úr landi eftir að hafa framvísað fölsuðu vottorði.
Forsetinn segir rannsóknar þörf á þeim fjölda sem hefði farið úr landi eftir að hafa framvísað fölsuðu vottorði. AP/Ritzau Scanpix/Thomas Traasdahl

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur fordæmt spillingu í tengslum við heilsufarslegar undanþágur frá herþjónustu en hann segir að á sumum svæðum hafi fjöldi þeirra tífaldast frá því í fyrra.

Hann sagði rannsókn Öryggis- og varnarmálaráðs Úkraínu enn standa yfir en ljóst væri að spilling væri að leiða til þess að fleiri og fleiri kæmust undan herþjónustu á grundvelli falsaðra heilsufarsvottorða.

Ummælin lét Selenskí falla í daglegu ávarpi sínu í nótt.

Hann sagði rannsóknina þegar hafa leitt í ljós að spilling ætti sér stað í nokkrum héruðum og að ýmsir embættismenn væru viðriðnir málið. Múturnar næmu á bilinu 3.000 til 15.000 dölum, jafnvirði 400 þúsund til 2 milljóna íslenskra króna.

Forsetinn sagði að það væri síðan tilefni til annarar rannsóknar að kanna hversu margir hefðu flúið land eftir að hafa framvísað fölsuðum heilbrigðisvottorðum til að komast undan herþjónustu.

„Við erum að tala um þúsundir einstaklinga hið minnsta,“ sagði hann.

Fyrr í mánuðinum voru allir yfirmenn skráningastöðva hersins látnir fjúka. Þá sagði forsetinn að yfir hundrað sakamál væru í rannsókn vegna spillingar á skráningastöð í Odessa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×