Erlent

Kettir Ásu fjar­lægðir og komið fyrir í „dauða­at­hvarfi“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Umfangsmikil leit var gerð í húsi Ásu og Heuermann í tæpar tvær vikur eftir að hann var handtekinn.
Umfangsmikil leit var gerð í húsi Ásu og Heuermann í tæpar tvær vikur eftir að hann var handtekinn. AP

Lögreglan í New York-ríki Bandaríkjanna tók tvo ketti Ásu Ellerup, eiginkonu Rex Heuermann, og kom þeim fyrir á dýraathverfi þar sem dýrin eru drepin finni þau ekki nýjan eiganda. Heuermann er grunaður raðmorðingi, en það var í húsleit lögreglu á heimili hans og Ásu þar sem kettirnir voru fjarlægðir.

Fjallað er um málið í Bandarískum miðlum en þar kemur fram að fjölskyldu Heuermann hafi verið gefinn skammur fyrirvari til að pakka í töskur og yfirgefa húsið sitt á meðan lögregla gerði húsleitina. Þau fengu því ekki tíma til að finna kettina.

Haft er eftir Melissu Moore, sem hefur hjálpað fjölskyldunni undanfarið, að lögreglan hafi tilkynnt þeim að húsleitin myndi taka sinn tíma. Greint hefur verið frá því að hún hafi tekið tólf daga.

Þegar þau sneru svo aftur hafi allt verið á rúi og stúi á heimili þeirra og kettirnir hvergi sjáanlegir. Í ljós kom að þeim hafði verið komið fyrir á svokölluðu „dauðaathvarfi“ (e. kill shelter) þar sem dýrum er lógað ef ekki tekst að finna nýtt heimili handa þeim.

Þrátt fyrir þetta tókst fjölskyldunni að endurheimta kettina af heimilinu.

Mál Rex Heuermann, sem kennt hefur verið við Gilgo strönd í New York-ríki, hefur vakið sérstaka athygli hér á landi vegna þess að Ása er íslensk. Greint hefur verið frá því að hún hafi rætt við eiginmann sinn, og einnig sótt um skilnað.

Heuermann hefur neitað sök, en hann hefur verið ákærður fyrir að myrða þrjár konur og er grunaður um að hafa myrt þá fjórðu.


Tengdar fréttir

Óttast að móðir þeirra hafi verið síðasta fórnar­lambið

Ættingjar og vinir konu sem hefur verið saknað um árabil óttast að hún hafi verið fórnarlamb Rex Heuermann, sem er grunaður um að myrða fjölda kvenna. Lögreglan vestanhafs rannsakar nú hvort mál konunnar og Heuermann tengist, og þá hvort hún hafi verið síðasta fórnarlamb hans.

Grunaður raðmorðingi giftur íslenskri konu

Maðurinn, sem handtekinn var í New York í gær og er ákærður fyrir að myrða þrjár konur, er giftur íslenskri konu. Spjótin beindust meðal annars að honum vegna DNA-sýnis sem fannst á konunum þremur og talið er vera af íslensku konunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×