Þetta tiltekna mál snýr að viðleitni hans til snúa úrslitum forsetakosninganna 2020 og fara réttarhöldin fram í Washington DC.
Lögmenn Trumps höfðu farið fram á að réttarhöldin hæfust ekki fyrr en árið 2026. Saksóknarar vildu að réttarhöldin byrjuðu strax í janúar. Í dómsal í dag sagði Tanya Chutkan, dómari, að báðar dagsetningarnar sem saksóknarar og verjendur hefðu nefnt kæmu ekki til greina.
AP fréttaveitan hefur eftir Chutkan að almenningur í Bandaríkjunum eigi rétt á því að réttarhöldin hefjist sem fyrst og það yrði tekið fyrir hratt og örugglega.
Trump er aftur í forsetaframboði og þykir líklegastur til að hljóta tilnefningu Repúblikanaflokksins til kosninganna sem fara fram í nóvember á næsta ári.

Eins og áður segir munu réttarhöldin sem hefjast þann 4. mars snúast um tilraunir Trumps til að snúa úrslitum kosninganna. Í ákærunni gegn honum segir að Trump hafi rétt til þess að tala um kosningarnar og jafnvel til að segja ósatt og halda því fram að hann hafi unnið. Þá hafi hann einnig haft rétt á því að beita löglegum leiðum til að krefjast endurtalninga og rannsókna eftir kosningarnar og það hafi hann gert.
Þar segir að hann hafi þó ekki rétt til að beita ólöglegum leiðum og bellibrögðum til að snúa úrslitunum. Saksóknarar segja einnig að viðleitni Trumps hafi brotið gegn grunni lýðveldis í Bandaríkjunum.
Ákæran snýr ekki eingöngu að lygum hans um úrslit kosninganna heldur einnig tilraunir hans og bandamanna hans til að skipta út réttkjörnum kjörmönnum í sjö ríkjum.
Tvö réttarhöld í mars
Hitt málið sem Smith hefur höfðað gegn Trump snýr að opinberum og leynilegum skjölum og gögnum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu til Flórída á árum áður og neitaði að afhenda Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna, eins og honum bar að gera samkvæmt lögum.
Trump hefur einnig verið ákærður vegna tilrauna hans til að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í Georgíu á árum áður og vegna greiðslu til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels.
Búið er að ákveða hvenær réttarhöldin eiga að hefjast í síðastnefnda málinu en þau hefjast einnig í mars á næsta ári. Nánar tiltekið hefjast þau þann 25. mars í New York.