Íslenski boltinn

Kári hefur komið ferskur inn og með mikla fag­mennsku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason með Íslandsbikarinn og bikarinn eftir tvöfaldan sigur Víkinga sumarið 2021. Þeir eiga enn möguleika á að endurtaka leikinn í ár en þá með Kára sem yfirmann knattspyrnumála.
Kári Árnason með Íslandsbikarinn og bikarinn eftir tvöfaldan sigur Víkinga sumarið 2021. Þeir eiga enn möguleika á að endurtaka leikinn í ár en þá með Kára sem yfirmann knattspyrnumála. Vísir/Hulda Margrét

Framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings hrósar Kára Árnasyni fyrir starf hans síðustu ár en Kári hætti að spila og fór að stjórna málum á bak við tjöldin hjá félaginu.

Vikingar hafa átt gott sumar og góð undanfarin ár. Liðið hefur unnið fjóra stóra titla í karlafótboltanum frá 2019 og vann síðan sinn fyrsta stóra titil í kvennafótboltanum í sumar.

Karlaliðið á líka góða möguleika á að bæta við titlum í sumar enda með ellefu stiga forskot í Bestu deildinni og komið í bikarúrslitaleikinn.

Kvennaliðið á einnig möguleika á að vinna tvöfalt, þær eru búnar að vinna bikarinn og geta einnig unnið Lengjudeildina og komist upp í Bestu deildina.

Svava Kristín Gretarsdóttir ræddi við Harald Haraldsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings, á dögunum og þá meðal annars um Kára Árnason sem tók við sem yfirmaður knattspyrnumála þegar hann setti knattspyrnuskóna sína á hilluna haustið 2021.

„Kári kemur þarna inn og hann gegnir stöðu yfirmanns knattspyrnumála. Myndir þú telja það mikilvæga stöðu hjá knattspyrnufélagi í dag,“ spurði Svava Kristín Gretarsdóttir.

Vildu koma heim til að deyja

„Já hún er alveg nauðsynleg. Gott að þú kemur inn á þetta því það sem gerist líka hérna í Víkingi árið 2019 er að Kári (Árnason) og Sölvi (Geir Ottesen) koma heim. Þeir voru nú ekki þessir dæmigerðu ungu leikmenn sem við vorum að sækja heldur gamlir karlar í raun og veru. Þeir vildu koma heim til að deyja og þeir lögðu allt á sig til að vinna þennan fyrsta titil,“ sagði Haraldur V. Haraldsson.

„Svo þekkjum við söguna frá 2021 þegar við vinnum tvöfalt og þættina sem Stöð 2 gerði um það lið. Það var eins og einhver lygasería, það handrit. Varðandi yfirmann knattspyrnumála. Kári hefur komið mjög ferskur inn í það og leiðir öll þessi leikmannamál. Leikmannasölur og samskipti við erlend félög,“ sagði Haraldur.

Mikilvæg staða

„Þetta er mjög mikilvæg staða og hefur reynst okkur góð ákvörðun að fara í. Þarna er komin miklu meiri fagmennska í kringum hlutina heldur en var. Þetta var kannski á einhverjum stjórnarmanni samhliða skrifstofunni að sjá um eitthvað. Þegar þú ert með menn í hlutastarfi í þessu þá er ekki alveg saman fagmennskan. Kári kemur inn mjög öflugur í þetta,“ sagði Haraldur eins og sjá má hér fyrir neðan.

Klippa: Haraldur um Kára Árnason og starfið hans



Fleiri fréttir

Sjá meira


×