Íslenski boltinn

Heyrðu sam­­skipti dómara þegar upp úr sauð á Fram­vellinum: „Þetta er rautt!“

Aron Guðmundsson skrifar
Mynd úr umræddum leik Fram og ÍBV í 5.umferð Bestu deildar karla fyrr í sumar.
Mynd úr umræddum leik Fram og ÍBV í 5.umferð Bestu deildar karla fyrr í sumar. Vísir/Hulda Margrét

Í Stúkunni, upp­gjörs­þætti Bestu deildar karla í gær­kvöldi, var dregin fram ansi at­hyglis­verð upp­taka af sam­skiptum dómara í leik Fram og ÍBV í 5.um­ferð deildarinnar.

Dómarar leiksins veittu þættinum góð­fús­legt leyfi til þess að sýna á­horf­endum frá þeirra störfum og því sem fór þeirra á milli á ansi áhugaverðum tíma­punkti í leiknum þegar að sauð upp úr.

Leikar stóðu 2-1 í leiknum fyrir Fram þegar rúmar tíu mínútur eftir lifðu leiks og Hall­dór Jón Sigurður Þórðar­son, leik­maður ÍBV fór harka­lega í bakið á Tiago, leik­manni Fram.

Þá varð allt snælduvitlaust, bæði innan vallar sem og á hliðar­línunni, og var ansi á­huga­vert að sjá hvernig Vil­hjálmur Alvar Þórarins­son, dómari leiksins og að­stoðar­menn hans leystu úr málunum.

Klippa: Áður óheyrð samskipti dómara þegar upp úr sauð á Framvellinum

„Það var á­huga­vert að sjá þetta,“ sagði Guð­mundur Bene­dikts­son, um­sjónar­maður Stúkunnar eftir að mynd­skeiðið hafði verið spilað. „Ég þekki ó­trú­lega marga sem telja sig vera stór­brotna dómara heima í stofu og hvar sem þeir eru á vellinum.

Þarna sjáum við að það þarf ekki bara að fylgjast með 22 ein­stak­lingum inn á vellinum, sem oft hegða sér eins og krakkar. Heldur eru einnig tuttugu ein­staklingar þarna fyrir utan, á hliðar­línunni, með alls konar rugl. Það þarf svo sannar­lega fjögur sett af augum, að minnsta kosti, til þess að fylgjast með þessu öllu.“

Atli Viðar Björns­son, einn af sér­fræðingum Stúkunnar, tók undir það og þótti mikið til Vil­hjálms Al­vars, dómara leiksins, koma.

„Hvernig hann var að reyna róa leik­menn, tala við þá í öðru hvoru orði og hin orðin notar hann í að tala við kollega sína og þeir tala sig niður á á­kvörðun, hvernig þeir ætli að leysa þetta. Það var mjög á­huga­vert að sjá þetta.“

Svona innslög eru ávallt áhugaverð enda ekki á hverjum degi sem áhugafólki um íþróttina gefst tækifæri til þess að skyggnast inn í störf dómaranna. 

Bragi Bergmann knattspyrnudómari var með hljóðnema á sér í leik ÍA og Vals þann 25. júlí árið 1992 á Akranesvelli. Það er óhætt að segja að það hafi verið heitt í kolunum í þeim leik líkt og sjá má í innslaginu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×