Veður

Skipta með sér skýjunum

Eiður Þór Árnason skrifar
Það verður bjart veður suðvestantil í dag.
Það verður bjart veður suðvestantil í dag. vísir/vilhelm

Spáð er hægri vestlægri eða breytilegri vindátt í dag og björtu veðri að mestu suðvestantil en skýjað með köflum og dálitlum skúri í öðrum landshlutum. Líkur eru á skúrum á víð og dreif en úrkomumagnið yfirleitt lítið. Léttir til norðan- og austanlands um kvöldið. Hiti 9 til 17 stig og hlýjast suðvestantil.

Á morgun föstudag verður áfram hæg breytileg átt víðast hvar. Ívið meiri úrkoma en yfirleitt þurrt um landið norðaustanvert. Þá er útlit fyrir bjartviðri á Norður- og Austurlandi en lengst af skýjað suðvestantil. 

Hitastigið verður á svipuðum nótum áfram og þar sem sólar nýtur getur hitinn farið í 15 til 18 stig þar sem best lætur. Þetta kemur fram í spá veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands en líkt og að undanförnu halda lægðirnar sig fjarri landinu og veður með allra rólegasta móti.

Á laugardag er spáð austlægri eða breytilegri átt og 3 til 8 metrum á sekúndu. Allvíða skúrir, einkum síðdegis. Hiti 7 til 15 stig en svalast við norðausturströndina. Á sunnudag er gert ráð fyrir austlægri átt, 3 til 10 metrum á sekúndu og dálítilli rigningu eða skúri á sunnanverðu landinu. Yfirleitt þurrt fyrir norðan. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Suðlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og víða skýjað, en sums staðar dálítil væta, einkum sunnan- og vestantil. Hiti yfirleitt 10 til 15 stig.

Á laugardag:

Austlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s og allvíða skúrir, einkum síðdegis. Hiti 7 til 15 stig, svalast við norðausturströndina.

Á sunnudag:

Austlæg átt, 3-10 m/s og dálítil rigning eða skúrir á sunnanverðu landinu, en yfirleitt þurrt fyrir norðan. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):

Áframhaldandi austlæg átt. Víða síðdegisskúrir, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti víða 8 til 14 stig.

Á þriðjudag:

Hæg norðlæg átt, víða þurrt og bjart veður, en fremur svalt fyrir norðan og austan.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir norðvestanátt með rigningu á norðan- og austanverðu landinu og svalt þar, en þurrt og mildara syðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×