Erlent

Nýtt avóka­dóaf­brigði lítur dagsins ljós eftir fimm­tíu ár í þróun

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ávöxturinn hefur notið mikilla vinsælda heimsbyggðarinnar.
Ávöxturinn hefur notið mikilla vinsælda heimsbyggðarinnar. EPA

Sérfræðingar við Riverside-háskólann í Kaliforníu hafa nú kynnt nýtt afbrigði af ávextinum vinsæla eftir fimmtíu ár af þróunarvinnu. Afbrigðið ber nafnið Luna. 

Nokkur atriði greina Lunu-afbrigðið frá hinu ríkjandi Hass-afbrigði af avókadói. Til að mynda vex Luna á minni trjám og því verður uppskera á því skilvirkari og öruggari en annars. Ekki þarf að klifra upp stiga til þess að sækja fullvaxna ávextina. Að auki er fleiri ávexti að finna á hverjum rúmmetra á Lunu-trénu en á Hass-trénu, kemur fram í frétt Axios. Afbrigðið eigi því möguleika á að auka framboð á avókadómarkaði.

Smávægilegur munur er á bragðinu á Lunu-afbrigðinu og því sem við þekkjum. Í tilkynningu frá háskólanum segir að reginmunurinn sé áferðin, sem er best lýst sem mjúkri. Þá er börkurinn á Lunu-afbrigðinu ögn þykkari en á Hass-afbrigðinu. 

Í tilkynningu frá háskólanum segir að fimmtán til tuttugu ár taki til þess að koma nýju afbrigði af ávextinum á markað. Að auki líði allt að fimm ár frá því að fræi er plantað þar til fyrsti ávöxturinn vex. Því sé svolítill tími þar til hægt verður að vitja Lunu-avókadósins í matvöruverslunum. 

Því sé of snemmt að segja til um hvort afbrigðið nái árangri á markaði. Síðast þegar slíkur árangur náðist hjá avókadóafbrigði var árið 2003 þegar Gem-afbrigðið leit dagsins ljós, einnig frá Riverside háskólanum í Kaliforníu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×