Íslenski boltinn

Edmundsson nemur land á Akureyri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóan Símun Edmundsson, nýjasti leikmaður KA, í leik með Arminia Bielefeld.
Jóan Símun Edmundsson, nýjasti leikmaður KA, í leik með Arminia Bielefeld. getty/Martin Rose

Jóan Símun Edmundsson, þrautreyndur færeyskur landsliðsframherji í fótbolta, er genginn í raðir KA. Hann var meðal annars á mála hjá Newcastle United á sínum tíma.

Breiðablik var einnig orðað við Edmundsson en hann endaði í KA. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, þekkir vel til Edmundssons en þeir léku saman hjá OB í Danmörku.

Edmundsson, sem verður 32 ára á morgun, er uppalinn hjá B68 Tóftum í Færeyjum en gekk í raðir Newcastle United 2010. Hann lék þó aldrei með aðalliði félagsins. Edmundsson hefur einnig leikið með Gateshead á Englandi, Viking í Noregi, Fredericia, AB, Vejle og OB í Danmörku, B68 Tóftum og HB í heimalandinu, Arminia Bielefeld í Þýskalandi og Beveren í Belgíu.

Edmundsson hefur leikið 79 leiki fyrir færeyska landsliðið og skorað átta mörk.

KA mætir Dundalk í fyrri leik liðanna í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu á Framvellinum á fimmtudaginn.

KA er í 6. sæti Bestu deildarinnar og komið í úrslit Mjólkurbikarsins þar sem liðið mætir annað hvort KR eða Víkingi.

Hjá KA hittir Edmundsson fyrir landa sinn, Pæt Joensson Petersen. Hann hefur leikið þrettán leiki í Bestu deildinni í sumar og skorað eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×