Enski boltinn

Sjáðu þegar lík­bíll og Subaru-bif­reið stöðvuðu knatt­spyrnu­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bílarnir sem um er ræðir.
Bílarnir sem um er ræðir. Skjáskot

Vináttuleik knattspyrnuliðanna Dunston og Gateshead var hætt eftir að tveir menn með lambúshettur keyrðu líkbíl og Subaru-bifreið inn á völlinn. Lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu.

Leikur Dunston og Gateshead væri ekki fréttnæmur í eðlilegu árferði enda Dunston í utandeildinni á Englandi og Gateshead í 5. deild. Atvikið sem átti sér stað gerði hins vegar leikinn að umfjöllunarefni flestra fréttamiðla Englands.

Gateshead sagði á Twitter-síðu sinni að vegna „atviks“ á vellinum hefði leik verið hætt í hálfleik en staðan þá var 1-1.

Téð atvik var eitthvað sem ekki hefur sést áður - allavega ekki oft - á knattspyrnuvelli. Tveir bílar, annars vegar líkbíll og hins vegar Subaru-bifreið, óku inn á völlinn og óku þar í nokkra hringi með tilheyrandi látum og skemmdum á vellinum. 

Báðir ökumenn og aðrir í bifreiðunum voru með lambúshettu svo ekki var hægt að greina hverjir væru á ferð. Eftir að keyra nokkra hringi fór ökumaður líkbílsins og annar maður sem hafði verið í bílnum yfir í Subaru-bifreiðina sem keyrði svo í burtu. Líkbíllinn var skilinn eftir á vellinum.

Lögreglan á svæðinu hefur staðfest að enginn hafi meiðst eða verið ógnað vegna atviksins. Rannsókn er þó hafin.

Dunston segir að félagið muni gera hvað það geti til að lagfæra völlinn sem og girðingar í kringum völlinn svo atvik sem þessi komi ekki upp aftur. Gateshead vildi ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×