Íslenski boltinn

Rúnar vann loksins Heimi eftir þriggja ára bið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í gær með Heimi Guðjónsson í baksýn.
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í gær með Heimi Guðjónsson í baksýn. Vísir/Diego

Rúnar Kristinsson tókst að stýra KR til sigurs á móti FH í gær en úrslitin réðust á lokamínútu leiksins eftir að FH hafði klúðrað vítaspyrnu.

Þetta var langþráður sigur hjá Rúnari á móti þjálfara sem hann kannast vel við. Heimir var greinilega mjög pirraður í leikslok því hann skrópaði í viðtöl við fjölmiðla.

Þetta var annað tap FH í röð og með þessum sigri á komst KR upp fyrir FH-liðið í töflunni. Það er frábær endurkoma miðað við það að KR tapaði fimm leikjum í röð apríl og maí og var um tíma langt á eftir FH.

Rúnar og Heimir Guðjónsson þjálfari FH, þekkjast vel enda jafnaldrar sem komu saman upp um yngri flokka KR á sínum tíma.

Heimir var fyrir leikinn í gær búinn að fagna sigri í fimm leikjum í röð á móti liðum Rúnars í efstu deild þar af vann FH 3-0 sigur á KR í fyrri leiknum.

Rúnar hafði ekki náð að vinna Heimi síðan þeir mættust í fyrstu umferð Covid-tímabilsins 2020. Sá leikur fór ekki fram fyrr en 13. júní vegna kórónuveirunnar en Heimir var þá að stýra liði Val. KR vann leikinn1-0 þökk sé sigumarki Óskars Arnars Haukssonar.

Nú þremur árum og einum mánuði seinna tókst Rúnari loksins að leggja sinn gamla félaga. Á þeim tíma hefur Heimir þjálfað bæði FH og Val.

Sigurinn í gærkvöldi var líka einnig aðeins annar sigur Rúnars á móti Heimi í síðustu níu innbyrðis leikjum þeirra í deildinni. Rúnar vann aftur á móti fjóra leiki í röð á móti Heimi frá 2012 til 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×