Íslenski boltinn

„Ef góður leik­maður vill koma og reyna sig með Kefla­vík er bara að hafa sam­band“

Kári Mímisson skrifar
Sigurður Ragnar var ekki sáttur með að fá aðeins stig í dag.
Sigurður Ragnar var ekki sáttur með að fá aðeins stig í dag. Vísir/Diego

„Bara svekkelsi, áttum að vinna þennan leik,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, eftir 3-3 jafntefli sinna manna gegn toppliði Víkings.

Sigurður Ragnar var mjög svekktur með úrslit leiksins en Keflavík komst 1-0 yfir og var 3-2 yfir þegar komið var fram í uppbótartíma.

„Í stöðunni 3-2 komumst við einir í gegn, hefðum getað komist í 4-2 en klúðrum því. Fannst þeir líka fá gefins víti og það átti maður að fjúka út af hjá þeim fyrir að slá okkar mann í andlitið. Fannst dómararnir taka of vægt á því,“ bætti Sigurður Ragnar við en Danijel Dejan Djuric fór niður við litla ef einhverja snertingu innan vítateigs skömmu eftir að Keflavík komst yfir.

Sigurður Ragnar bætti svo við að hann áttaði sig ekki á því af hverju uppbótartíminn var jafn langur og raun bar vitni en sjö mínútum var bætt við.

„Er stoltur af mínu liði, leikplanið gekk vel upp,“ bætti hann við áður en hann ræddi leikmannamál Keflavíkur enn og aftur.

„Eigum Stefan Alexander Ljubičić inni eftir að hann fékk heilahristing á æfingu. Ef góður leikmaður vill koma og reyna sig með Keflavík er bara að hafa samband,“ sagði Sigurður Ragnar hlæjandi að lokum.

Eftir jafntefli dagsins er Víkingur á toppi deildarinnar með 38 stig á toppi deildarinnar eftir 15 leiki á meðan Keflavík er í botnsæti deildarinnar með 9 stig að loknum 14 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×