Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Víkingur 3-3 | Han­sen bjargaði stigi fyrir topp­liðið

Kári Mímisson skrifar
Nikolaj Hansen bjargaði stigi fyrir Víkinga með marki í uppbótartíma.
Nikolaj Hansen bjargaði stigi fyrir Víkinga með marki í uppbótartíma. Vísir/Hulda Margrét

Botnlið Keflavíkur tók á móti toppliði Víkings í 14. umferð Bestu deildar karla nú í kvöld. Það var ekki að sjá að þessi lið væru á sitthvorum enda töflunnar í dag og eftir afar dramatískar lokamínútur varð niðurstaðan 3-3 jafntefli.

Það var ekki mikið liðið af leiknum þegar fyrsta markið leit dagsins ljós og það var Keflavík sem gerði það. Fyrirliðinn Magnús Þór Magnússon skoraði með skalla eftir glæsilega hornspyrnu frá Sami Kamel sem var mættur aftur í lið Keflavíkur.

En Víkingar voru ekki lengi að jafna og það gerði Nikolaj Hansen úr vítaspyrnu. Gunnlaugur Fannar braut afar klaufalega á Danijel Djuric og Helgi Mikael í engum vafa og benti á punktinn.

Hansen skoraði af öryggi framhjá landa sínum Mathias Rosenørn í marki Keflavíkur.

Aðeins nokkrum mínútum síðar voru Víkingar komnir yfir og þar var að verkum Danijel Dejan Djuric eftir sendingu frá Erlingi Agnarssyni. Logi Tómasson sendi boltann inn fyrir á Erling sem gat skotið en rendi boltanum í staðinn fyrir á Danijel sem skoraði í tómt markið. 2-1 fyrir gestunum.

En heimamenn gáfust ekki upp og jöfnuðu leikinn skömmu síðar og aftur var það eftir hornspyrnu frá Sami Kamel. Sami tók hornspyrnu í miðjan pakkann þar sem boltinn virðist fara af Oleksii Kovtun í netið. 4 mörk og ekki 15 mínútur liðnar.

Eftir þetta róaðist leikurinn smá og liðin skiptust á að halda boltanum en þó án þess að skapa sér nein alvöru færi. Staðan í hálfleik því 2-2.

Keflvíkingar byrjuðu síðar hálfleikinn sterkt þegar Franz Elvarsson kom heimamönnum yfir. Víkingar töpuðu boltanum á hættulegum stað. Sindri Þór Guðmundsson finnur Franz á hægri kantinum sem lætur vaða úr þröngu færi og boltinn hafnaði í netinu. Ingvar Jónsson markvörður Víkinga hefði sennilega átt að gera betur í þessu marki.

Keflvíkingar vörðust vel og fengu jafnvel færi til þess að bæta við mörkum en á sama tíma litu Víkingar illa út og voru í miklu basli með sitt uppspil.

Á 78. mínútu kom svo heldur betur atvik sem verður rætt næstu dagana. Víkingar fá innkast og Davíð Örn Atlason gerði sig líklegan til að taka það. Ernir Bjarnason hleypur í veg fyrir Davíð og það virðist sem Davíð slái til Ernis. Eitthvað sem fólk verður sennilega að dæma fyrir sig sjálft.

Sókn Víkinga þyngist mikið undir lokin og á endanum uppskáru þeir markið sem þeir þurftu til að jafna leikinn. Í uppbótatímanum átti Birnir Snær Ingason þá frábæra fyrirgjöf á Nikolaj Hansen sem skallaði örugglega í netið og tryggði í leiðinni eitt stig fyrir Víking. Keflvíkingar geta farið afar svekktir heim en þeirra frammistaða í dag var sennilega sú besta í deildinni á þessu tímabili.

Af hverju varð jafntefli?

Það stefndi allt í sigur Keflavíkur í dag þar til Nikolaj Hansen jafnaði í uppbótatíma. Við getum alveg sagt það að Keflvíkingar voru rændir hér í dag og því varð jafntefli.

Hverjir stóðu upp úr?

Sami Kamel er yfirburðamaður í þessu liði Keflavíkur og sýndi það í dag. Tvær stoðsendingar og svo bjó hann til dauðafæri fyrir Sindra Þór líka. Ef Sami helst hell það sem eftir er af tímabilinu þá getur Keflavík haldið sér uppi, ég tala nú ekki um ef þeir fá Nacho og Vuk til baka.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Víkinga var ekki góður í dag. Ég set spurningarmerki við öll þrjú mörkin sem Keflvíkingar skoruðu. Tvö mörk eftir fast leikatriði og svo hljóta Oliver Ekroth og Ingvar Jónsson að spyrja sig eitthvað út í mark númer þrjú.

Hvað gerist næst?

Víkingur er á leið í víking í næstu viku þegar liðið fer til Lettlands að leika við Riga FC í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Leikurinn fer fram fimmtudaginn 13. júlí og hefst klukkan 17:00 að íslenskum tíma. Keflavík fer til Vestmannaeyja á sunnudaginn eftir viku til að leika við ÍBV. Sá leikur hefst klukkan 16:00.

„Stigið mun reynast dýrmætt“

Arnar vonast til að menn hafi verið aðeins að spara sig fyrir Evrópuleikinn á fimmtudag.Vísir/Hulda Margrét

„Hrikalega ánægður, stigið mun reynast dýrmætt þegar talið verður upp úr kössunum í haust,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, að leik loknum.

„Lengi vel leit út fyrir að við myndum ekki fá neitt úr þessum leik,“ bætti hann við áður en hann ræddi komandi Evrópuævintýri Víkinga.

„Vonandi voru menn að spara sig aðeins fyrir átökin á fimmtudögum því þetta verður mjög erfitt. Megum ekki vera barnalegir, þurfum að vera pragmatískir og koma heim með úrslit í farteskinu til að eiga möguleika á að komast áfram,“ sagði Arnar að endingu.

Víkingur mætir Riga FC frá Lettlandi ytra á fimmtudaginn kemur, þann 13. júlí. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira